Ríkisendurskoðun tók nýverið saman minnisblað um fjárhagsstöðu Ríkisútvarpsins (RÚV) að beiðni fjárlaganefndar Alþingis. Minnisblaðið var eitt þeirra gagna sem lá til grundvallar umfjöllunar fjárlaganefndar um málefni RÚV, en minnisblaðinu var lekið til Morgunblaðsins sem birti forsíðufrétt sem byggð var á upplýsingunum sem þar var að finna. Eftir að fréttin birtist, neyddist Ríkisendurskoðun til að senda frá sér tilkynningu þar sem fram kemur að töluvert hafi verið um rangfærslur í minnisblaðinu.
Fjárlaganefnd Alþingis, sem ákvarðar fjárframlög til stofnanna ríkisins, hafði því fengið í hendurnar meingallað minnisblað Ríkisendurskoðunar um fjárhagsstöðu RÚV. Alls óvíst er hvort upp hefði komist um ágalla minnisblaðsins, hefði því ekki verið lekið til fjölmiðla. Ríkisendurskoðun sendi fjárlaganefnd Alþingis umrætt minnisblað þann 13. nóvember síðastliðinn.
Minnisblaðið fullt af rangfærslum
Í minnisblaðinu sem Ríkisendurskoðun sendi fjárlaganefnd var ranghermt að uppgjör RÚV fyrir tvö síðustu almanaksár hefðu ekki verið árituð af stjórnendum og endurskoðendum félagsins, eins og lög mæla fyrir um. Svo virðist sem að Ríkisendurskoðun hafi látið undir höfuð leggjast að leita skýringa hjá Fjársýslu ríkisins, sem tekur við ársreikningum RÚV, en rangfærslu Ríkisendurskoðunar má rekja til misskilnings stofnunarinnar á uppgjörsmálum félagsins.
Þá er dregin sú ályktun í minnisblaðinu að samdráttur í starfsmannahaldi hafi ekki enn skilað sér í lægri launakostnaði hjá RÚV, en félagið greip til verulegra sparnaðaraðgerða með uppsögnum starfsfólks í lok síðasta árs. Í minnisblaðinu er fjallað um launakostnað RÚV fyrir tímabilið 1. september 2013 til 28. febrúar síðastliðins og hann borinn saman við sama tímabil árið á undan. Samanburðurinn leiddi í ljós að launagjöld hækkuðu um 5,9 prósent og stöðugildum fækkaði úr 296 í 273. Í tilkynningu Ríkisendurskoðunar, þar sem rangfærslur áðurnefnds minnisblaðs eru leiðréttar, segir að ekki sé að vænta sjáanlegs sparnaðar vegna samdráttaraðgerða RÚV í lok árs 2013, fyrr en síðar og því gefi staðan í lok febrúar ekki rétta mynd af núverandi stöðu.
Eins og fram hefur komið hefur stjórn RÚV ákveðið að auglýsa skrifstofuhúsnæði í Útvarpshúsinu við Efstaleiti til leigu. Í minnisblaði Ríkisendurskoðunar er fullyrt að ásókn í húsnæðið sé ekki mikil. Hið rétta er að stjórnendur RÚV hafa fundið fyrir miklum áhuga á húsnæðinu, og telja góðar líkur á að innan skamms verði unnt að ganga frá leigusamningum.
Fullyrðingar sem ekki standast skoðun
Ríkisendurskoðun telur ekkert benda til annars er að stjórn RÚV hafi ávallt verið upplýst um afkomu, stöðu og horfur í rekstri félagsins ásamt tillögum til aðgerða, að því er fram kemur í títtnefndu minnisblaði. Í tilkynningu Ríkisendurskoðunar er áréttað að stofnuninni sé ekki kunnugt um að upplýsingum um reksturinn hafi verið leynt fyrir stjórn eða þær settar fram með misvísandi hætti. Hins vegar megi geta þess að stjórnarmenn í fyrri stjórn RÚV hafi gert athugasemdir við það að sem þeir töldu ófullnægjandi upplýsingagjöf um málefni félagsins, og það komi fram í fundargerðum þess. Þá hafi sömuleiðis komið fram að stjórnendur félagsins hafi unnið með stjórn þess að því að bæta upplýsingagjöf til stjórnar, til að gera hana markvissari en áður.
Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri kaus að tjá sig ekki um málið, þegar Kjarninn leitaði viðbragða hans við vinnubrögðum Ríkisendurskoðunar. Hann staðfesti hins vegar að forsvarsmenn Ríkisútvarpsins hefðu fyrst haft spurnir af minnisblaði Ríkisendurskoðunar þegar þeir lásu frétt um það á forsíðu Morgunblaðsins á föstudag. Þá staðfesti hann einnig að ekki hefði verið leitað upplýsinga hjá starfsmönnum félagsins og að í minnisblaðinu hefðu verið villur. Hann bætti við að það hefði þó verið bót í máli þegar Ríkisendurskoðun hefði sent frá sér leiðréttingu seinna um daginn.