Á fyrirliggjandi fjárlögum er lántökuheimild upp á allt að fjóra milljarða króna frá ríkissjóði til félagsins Betri samgangna ohf., sem stofnað var utan um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu, á næsta ári.
Félagið var stofnað af ríkinu og sex sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu til þess að hrinda framkvæmdum við samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins í framkvæmd, meðal annars lagningu Borgarlínu.
Áætlaður kostnaður á 15 árum er 120 milljarðar króna og þegar samgöngusáttmálinn var undirritaður haustið 2019 var gert ráð fyrir að um helmingur hans yrði fjármagnaður með nýjum umferðar- og flýtigjöldum. Sveitarfélögin áttu að borga 15 milljarða króna og ríkið 45 milljarða króna.
Ríkisendurskoðun gerir lántökuheimildina að umfjöllunarefni í umsögn sinni um fyrirliggjandi fjárlagafrumvarp, sem nú er til meðferðar á Alþingi.
Þar vekur stofnunin athygli á að samgönguframkvæmdir sem ætlunin sé að fjármagna með öðrum hætti en með beinum framlögum úr ríkissjóði geti haft áhættu í för með sér fyrir ríkissjóð, ekki síst ef áætlanir um kostnað við framkvæmdir og tekjur vegna notkunar hafa ekki verið útfærðar og eru mikilli óvissu háðar.
Gjalda þarf varhug
Í umsögninni rifjar Ríkisendurskoðun upp gerð Vaðlaheiðarganga í þessu sambandi, en upphaflega var gert ráð fyrir að einkaaðilar myndu fjármagna gerð þeirra. Í raun var það forsenda þess að ákveðið var að ráðast í verkefnið. „Mál skipuðust hins vegar með þeim hætti að einkaaðilar töldu ávöxtun og áhættu verkefnisins vera slíka að þeir treystu sér ekki til að lána fé til þess. Ríkissjóður stendur líklega núna frammi fyrir því að þurfa að gefa eftir hluta lána til félagsins í tengslum við fjárhagslega endurskipulagningu þess þrátt fyrir að ekki hafi verið gert ráð fyrir því þegar ríkið ákvað að stíga inn í verkefnið og tryggja framgang þess.“
Í umsögn Ríkisendurskoðunar segir að áhætta af lánveitingu ríkissjóðs minnki ekki ef aðrir aðilar en ríkið eru ráðandi um tilhögun þess og stýra í raun ferðinni, líkt og er í tilfelli Betri samgangna. „Gjalda þarf varhug þegar kemur að heimildum til lántaka með ábyrgð ríkisins þegar mikil óvissa ríkir um fjárhagsgrundvöll þess verkefnis sem lána skal til.“
Átti að vera aðlaðandi fyrir fjárfesta
Íslenska ríkið ákvað á árunum 2009 og 2010 að kanna að ráðist yrði í gerð Vaðlaheiðarganga í einkaframkvæmd. Leitað var til íslenskra lífeyrissjóða um að koma að fjármögnun verkefnisins en ekki náðist saman um slíkt. Því ákvað þáverandi ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna að verkefnið yrði fjármagnað af ríkissjóði til skamms tíma en síðar yrði leitað á almennan markað að langtímafjármögnun. Verkefnið átti að verða aðlaðandi fyrir fjárfesta m.a. vegna þess að fjármögnunin átti að verða rekstrarlega sjálfbær með innheimtu veggjalds.
Í júní 2012 samþykkti Alþingi svo lög um gerð jarðganga undir Vaðlaheiði. Í þeim fólst að ríkissjóður gat lánað allt að 8,7 milljarða króna til verkefnisins, á því verðlagi sem var í lok árs 2011. Vextir á lánunum voru allt að 3,7 prósent og átti það fé að duga fyrir stofnkostnaði. Sérstakt félag var stofnað utan um framkvæmdina, Vaðlaheiðargöng ehf. Meirihlutaeigandi þess félags með 66 prósent eignarhlut er Greið leið ehf. sem er meðal annars í eigu Akureyrarbæjar, fjárfestingarfélagsins KEA, Útgerðarfélags Akureyringa og annarra minni sveitarfélaga á Norðurlandi. Minnihlutaeigandi í félaginu er íslenska ríkið, sem á 33 prósent. Gert var ráð fyrir að framkvæmdum yrði lokið í árslok 2016 og að gangagröftur myndi klárast í september 2015. Göngin voru á endanum opnum í desember 2018. Innheimt veggjöld hafa ekki staðið undir kostnaði við gerð þeirra.
Skulda ríkinu 18,6 milljarða
Í úttektarskýrslu um gerð Vaðlaheiðaganga frá árinu 2017, sem unnin var að beiðni þáverandi ríkisstjórnarinnar, var komist að þeirri niðurstöðu að framkvæmdin gæti ekki talist eiginleg einkaframkvæmd. Í raun væri hún ríkisframkvæmd þótt að upphaflega hefði hún ekki verið kynnt sem slík til að hafi ekki þurft að lúta forgangsröðun samgönguáætlunar. Frá því að lög um gerð ganganna voru sett hafi íslenska ríkið borið megináhættu af Vaðlaheiðargöngum í formi framkvæmdaláns til verksins.
Skuldir Vaðlaheiðarganga við ríkissjóð voru 18,6 milljarðar króna um síðustu áramót og vaxtagjöld á síðasta ári voru 932 milljónir króna. Gjalddagi skulda félagsins var 1. maí síðastliðinn en búið er að fresta innheimtuaðgerðum á meðan að fjárhagsleg endurskipulagning félagsins utan um framkvæmdina stendur yfir.