Mynd: Hallveig Ungir Jafnaðarmenn í Reykjavík

Segist leiðast „pólitískt mont“ og að Borgarlínan sé stærsti áfanginn á ferlinum

Í nýrri bók Dags B. Eggertssonar borgarstjóra, „Nýja Reykjavík“ rekur hann fjölmargt sem átti sér stað á bakvið tjöldin í stjórnmálum síðustu ára, og hefur ekki áður komið fram. Hann hrósar pólitískum andstæðingum, sérstaklega leiðtogum ríkisstjórnarinnar, og dregur upp það sem hann er stoltastur af á ferlinum. Dagur viðurkennir líka mistök, meðal annars þau þegar hann sendi harðorðan tölvupóst á tvo formenn stjórnarflokkanna vegna stöðu samgöngumála höfuðborgarsvæðisins sem innihélt mat á „pólitískri hættu í málinu fyrir Katrínu og VG vegna loftslagsmála sem ég taldi að gæti leitt til slita á ríkisstjórninni“.

Dagur B. Egg­erts­son borg­ar­stjóri hefur skrifað bók, „Nýja Reykja­vík“, þar sem hann birtir póli­tíska sýn sína, opin­berar fjöl­margt sem gerst hefur í bak­grunni póli­tískra ákvarð­ana og blandar saman við eigið per­sónu­lega líf. Í bók­inni fjallar hann meðal ann­ars um aðdrag­anda gerðar sam­göngusátt­mála höf­uð­borg­ar­svæð­is­ins, sem inni­heldur full­fjár­magn­aða Borg­ar­línu, og hvernig þverpóli­tískt sam­starf hafi skilað því máli í höfn. Um hafi verið að ræða stærsta áfanga og mesta árangur sem Degi finnst hann hafa náð á öllum borg­ar­stjórn­ar­ferli sín­um. 

Hann segir að sér leið­ist póli­tískt mont og að það sé ótrú­legt hverju sé hægt „að ná fram ef maður skeytir ekki um hver fær heið­ur­inn“. Í því sam­hengi hrósar hann mörgum póli­tískum and­stæð­ingum sínum hástert, bæði þeim sem stýra núver­andi rík­is­stjórn og Sjálf­stæð­is­mönn­unum sem stýra nágranna­sveit­ar­fé­lögum Reykja­vík­ur. 

Í bók­inni nefnir Dagur sér­stak­lega að hann beri virð­ingu fyrir því að Bjarni Bene­dikts­son, for­maður Sjálf­stæð­is­flokks, hafi tekið slag­inn í eigin hópi og staðið með sátt­mál­anum með umbóta­öfl­unum þar inni þrátt fyrir mik­inn mót­byr. Dagur talar ekki af jafn mik­illi virð­ingu um afstöðu borg­ar­stjórn­ar­flokks Sjálf­stæð­is­flokks. „Um­skipti í við­horf­um, fram­tíð­ar­sýn og nýtt fólk í borg­ar­stjórn­ar­flokknum er í mínum huga for­senda þess að Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn verði stjórn­tækur í meiri­hluta­sam­starf í borg­inni í náinni fram­tíð.“

Geymdu stórar ákvarð­anir af til­lit­semi við Sjálf­stæð­is­flokk­inn

Mikið er fjallað um Borg­ar­línu­verk­efnið í bók­inni og það mikla sam­starf sem Dagur hefur átt við bæj­ar­stjóra í nágranna­sveit­ar­fé­lögum Reykja­víkur um það, en þeir eru allir úr Sjálf­stæð­is­flokkn­um. And­staða við verk­efnið hefur verið umtals­verð úr þeim flokki í Reykja­vík.

Borg­ar­línan rataði fyrst inn í stjórn­ar­sátt­mála rík­is­stjórnar 2016 og svo aftur ári síðar þegar núver­andi rík­is­stjórn­ar­sam­starf Vinstri grænna, Sjálf­stæð­is­flokks og Fram­sókn­ar­flokks varð að veru­leika undir for­ystu Katrínar Jak­obs­dótt­ur. 

Dagur segir að fljót­lega hafi orðið ljóst að rík­is­stjórn Katrínar ætl­aði að bíða með stórar ákvarð­anir um Borg­ar­línu þangað til eftir borg­ar­stjórn­ar­kosn­ing­arnar 2018. „Þetta var án efa af til­lit­semi við Sjálf­stæð­is­flokk­inn í borg­inni, þrátt fyrir ákvæði stjórn­ar­sátt­mál­ans og að Reykja­vík og hin sveit­ar­fé­lögin á höf­uð­borg­ar­svæð­inu væru sam­stíga í sinni afstöð­u.“ 

Haustið eftir borg­ar­stjórn­ar­kosn­ing­arn­ar, þar sem nýr meiri­hluti undir stjórn Dags var mynd­að­ur, hafi honum borist til eyrna að ný sam­göngu­á­ætlun væri að líta dags­ins ljós. Í drögum hennar hafi vantað fjár­magn í stór verk­efni í Reykja­vík og ekk­ert fjár­magn hafi verið ætlað í Borg­ar­línu nema í und­ir­bún­ing verk­efn­is­ins.

Póli­tísk hætta sem gæti leitt til slita á rík­is­stjórn

Dagur ákvað að skrifa Katrínu og Sig­urði Inga Jóhanns­syni, for­manni Fram­sókn­ar­flokks­ins og sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráð­herra, langan, harð­orðan tölvu­póst. Tit­ill­inn var: „Al­var­leg staða í sam­skiptum um sam­göngu­mál“. 

Þar útlita­staði hann athuga­semdir sínar og áhyggjur og að alvar­leg­ast væri að Borg­ar­lína væri ekki fjár­mögn­uð. „Ég lagði áherslu á tvennt: að sam­kvæmt grein­ingum SSH og Vega­gerð­ar­innar héldi tafa­tím­inn í umferð­inni áfram að lengj­ast og versna ef Borg­ar­lína yrði ekki að veru­leika. Hitt atriðið þótt mér ekki veiga­minna, að fót­unum yrði kippt undan sam­göngu­hluta lofts­lags­á­ætl­unar stjórn­valda ef þetta færi óbreytt í gegn.“

Dagur óskaði eftir fundi með ráð­herr­unum tveimur og var sá fundur boð­aður í snatri. „Á honum varð mér ljóst að ég hafði gert stór mis­tök. Með póst­inum hafði ég sent við­hengi, ítar­lega grein­ingu á stöð­unni að mati borg­ar­inn­ar. Þar var hins vegar ekki aðeins að finna þær sam­göngu­grein­ingar sem sér­fræð­ingar SSH höfðu gert til að styrkja okkar mál­flutn­ing heldur einnig mat á samn­ings­stöðu ríkis og sveit­ar­fé­laga. Meðal ann­ars var þarna mat á póli­tískri hættu í mál­inu fyrir Katrínu og VG vegna lofts­lags­mála sem ég taldi að gæti leitt til slita á rík­is­stjórn­inn­i.“

Stærsti áfang­inn á ferl­inum

Borg­ar­línan rataði þó inn í sam­göngu­á­ætlun og í kjöl­farið hófst vinna við það sem varð að sam­göngusátt­mála höf­uð­borg­ar­svæð­is­ins, en hann tryggir aðkomu ríkis og sveit­ar­fé­laga á svæð­inu að stærstu sam­göngu­fram­kvæmdum þar á næstu ára­tug­um, meðal ann­ars að gerð Borg­ar­línu. Áætl­aður kostn­aður á 15 árum var 120 millj­arðar króna og var gert ráð fyrir að um helm­ingur hans yrði fjár­magn­aður með nýjum umferð­ar- og flýtigjöld­um. Sveit­ar­fé­lögin áttu að borga 15 millj­arða króna og ríkið 45 millj­arða króna. 

Á samgöngusáttmálanum sem tryggir tilurð Borgarlínu eru níu undirskriftir. Sex þeirra sem skrifuðu undir eru úr Sjálfstæðisflokknum.
Mynd: Vegagerðin

Þegar vinnan við gerð sam­göngusátt­mál­ans var á loka­metr­un­um, og málið virt­ist vera í höfn, kom babb í bát­inn að sögn Dags. Fyr­ir­staðan í þing­flokki Sjálf­stæð­is­flokks virt­ist hafa magn­ast. Til stóð að kynna málið opin­ber­lega 11 .sept­em­ber 2019 en þau áform sprungu í loft upp eftir að sam­komu­lagið var kynnt fyrir þing­mönnum Sjálf­stæð­is­flokks.

Dagur segir að Bjarni Bene­dikts­son, for­maður Sjálf­stæð­is­flokks­ins, hafi greini­lega verið í miklum vand­ræð­um. „Hann sagði okkur að hann væri ekki viss um að hann kæmi þessu í gegnum þing­flokk­inn. Ég mat það við hann að vera svona hrein­skil­inn. Hann varð að fá fram breyt­ingar á plagg­in­u.“

And­staðan sner­ist um hvernig ríkið ætti að fjár­magna verk­efn­in, með umferð­ar- og flýtigjöld­um. Bjarni lagði til að því yrði breytt á þann hátt að tekjur af eigna­sölu eða bein fram­lög yrðu nefnd í stað­inn. Þá vildu ein­hverjir þing­menn Sjálf­stæð­is­flokks fá Sunda­braut inn í sátt­mál­ann, en sú fram­kvæmd hafði verið í allt öðru ferli. Við því var orðið þótt fjár­mögnun hennar væri ekki tryggð með sátt­mál­anum og að útfærsla hennar lægi ekki fyr­ir. 

Þetta dugði og skrifað var undir sátt­mál­ann rúmum tveimur vikum á eftir áætl­un, þann 26. sept­em­ber 2019. „Þetta var ein­hver stærsti áfangi og mesti árangur sem mér fannst ég hafa náð á öllum borg­ar­stjórn­ar­ferli mín­um,“ skrifar Dagur í bók­inni sinni.

Sig­urður Ingi í sögu­bæk­urnar og Katrín á heið­ur­inn

Klofn­ing­ur­inn til máls­ins náði líka til borg­ar­stjórn­ar­flokks Sjálf­stæð­is­flokks­ins. Þrátt fyrir að sex af níu und­ir­skriftum á sátt­mál­anum um sam­göngu­fram­kvæmdir á höf­uð­borg­ar­svæð­inu væru Sjálf­stæð­is­menn var borg­ar­stjórn­ar­flokk­ur­inn á móti. Þótt tveir full­trúar hans, Hildur Björns­dóttir og Katrín Atla­dótt­ir, styðji Borg­ar­línu hafi þær ekki treyst sér til að greiða mál­inu atkvæði.

Dagur segir að Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn hafi með þessu skilað auðu um fram­tíð­ina. „Hvernig ætlar hann eig­in­lega að gera sig aftur gild­andi í borg­ar­mál­un­um?“

Hann seg­ist valið að hafa aldrei tekið undir þær raddir sem vildu eigna honum heið­ur­inn af því að koma Borg­ar­línu og sam­göngusátt­mál­ann á kopp­inn. „Mér leið­ist póli­tískt mont.[...] Það er ótrú­legt hverju er hægt að ná fram ef maður skeytir ekki um hver fær heið­ur­inn.“

Heið­ur­inn lægi ekki síður hjá bæj­ar­stjórum og bæj­ar­stjórnum nágranna­sveit­ar­fé­lag­anna og sam­starfs­flokkum hans í meiri­hlut­anum í Reykja­vík. „Það tókst sann­ar­lega að hefja þessi mál langt yfir flokkslínur og sveit­ar­fé­lags­mörk. Sig­urður Ingi er líka í sögu­bæk­urnar sem sá sam­göngu­ráð­herra sem komið hefur hvað flestu í verk og það verður aldrei frá honum tek­ið. Ef for­ystu Katrínar og verk­stjórnar hefði ekki notið við væru þessi verk­efni heldur ekki á fljúg­andi ferð í und­ir­bún­ingi og í fram­kvæmd. Hennar er heið­ur­inn að því. Um það er ég sann­færður og verð henni ævin­lega þakk­látur fyrir vik­ið.“

Bjarni sýndi „ótví­ræða leið­toga­hæfi­leika“

Dagur segir að hann beri virð­ingu fyrir því að Bjarni tæki slag­inn í eigin hópi, stæði að þessum fram­sýna sátt­mála með umbóta­öfl­unum í eigin flokki og væri heils­hugar í þessu verk­efni innan fjár­mála­ráðu­neyt­is­ins og rík­is­stjórn­ar­inn­ar, þrátt fyrir þann and­byr sem hann mætti innan eigin flokks. „Með því sýndi hann ótví­ræða leið­toga­hæfi­leika og tókst að halda dyrum flokks­ins í borg­inni opnum fyrir grænni fram­tíð. Umskipti í við­horf­um, fram­tíð­ar­sýn og nýtt fólk í borg­ar­stjórn­ar­flokknum er í mínum huga for­senda þess að Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn verði stjórn­tækur í meiri­hluta­sam­starf í borg­inni í náinni fram­tíð.“

Hildur Björnsdóttir, sem nú sækist eftir því að leiða Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavík, fær hrós frá borgarstjóra fyrir grein sem hún skrifaði í mars á þessu ári.
Mynd: aðsend

Dagur hrósar í kjöl­farið Hildi Björns­dótt­ur, sem nú sæk­ist eftir því að leiða lista Sjálf­stæð­is­flokks­ins í Reykja­vík í næstu kosn­ingum og velta þar með Eyþóri Arn­alds úr sessi, fyrir grein sem hún skrif­aði í Morg­un­blaðið í mars síð­ast­liðnum þar sem hún „jarð­aði“ mál­flutn­ing ýmissa tals­manna gam­alla úrræða í sam­göngu­málum þar sem bíl­inn væri í algjörum for­gangi. „Með þess­ari öfl­ugu grein gerði Hildur algjör­lega ljóst hvar hún stendur í afstöð­unni til stærstu spurn­ing­anna um sam­göngu­mál og þróun borg­ar­innar og kall­aði eftir hug­rekki til breyt­inga.“

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar