Landsnet Körflulína 3 Mynd: Landsnet
Landsnet

Skerðing til bræðslna: Bilanir, byggðalína og brölt undan veirukreppu

Aflskortur vegna bilana og viðhalds véla í virkjunum ásamt flutningstakmörkunum á byggðalínunni valda því að ekki er hægt að fullnægja allri eftirspurn á rafmagni í augnablikinu. Við getum líka kennt veðrinu um.

Bil­anir í vélum í virkj­unum hafa sett strik í orku­reikn­ing lands­ins að und­an­förnu. Þannig er afl­geta til raf­magns­fram­leiðslu minni en hún gæti verið ef allt væri í topp­standi. Orku­vinnslan á sunn­an­verðu land­inu hefur einnig verið undir með­al­lagi sem skýrist af þáttum sem ekki er hægt að ráða við: Veðri. Vatns­árið, þ.e. hversu mikið vatn safn­að­ist í uppi­stöðu­lón virkj­an­anna, var lélegt í lands­hlut­an­um. Það var betra á Norð­ur- og Aust­ur­landi en þaðan er ekki hægt að flytja nægi­lega orku suður yfir heiðar til að mæta eft­ir­spurn­inni. Hún rann því í formi vatns við­stöðu­laust yfir stíflur Háls­lóns. Hund­ruð MW hafa streymt fram­hjá Kára­hnjúka­virkj­un. Það er vegna þess að byggða­lín­an, flutn­ings­kerfið sem færir orku og afl lands­hluta á milli, ræður ekki við verk­efn­ið. Nið­ur­staðan er sú að skerða hefur þurft afhend­ingu raf­magns til verk­smiðja sem þannig hafa samið við orku­fyr­ir­tæk­in.

Skortur á for­gangs­röð­un?

Orku­mál hafa verið fyr­ir­ferð­ar­mikil í sam­fé­lags­um­ræð­unni síð­ustu daga í kjöl­far þess að Lands­virkjun þurfti að grípa til þess að skerða afhend­ingu á raf­orku til fiski­mjöls­verk­smiðja sem nú eru starf­ræktar myrkr­anna á milli í upp­hafi mik­illar loðnu­ver­tíð­ar. Brenna þarf olíu til að fram­leiða það raf­magn sem upp á mun vanta til bræðsl­unnar og það þykir engum fýsi­legt í landi þar sem end­ur­nýj­an­leg orku­fram­leiðsla er með því mesta sem þekk­ist í heim­inum miðað við mann­fjölda. Orðið „orku­skort­ur“ hefur verið notað sem einnig þykir skjóta skökku við í landi vatns og íss. Ein­hverjir vilja meina að fleiri virkj­anir þurfi til að mæta „orku­skort­in­um“ og að hann eigi aðeins eftir að aukast sam­hliða fjölgun raf­bíla. Aðrir segja ekki hægt að tala um „skort“ í þessu sam­bandi. For­gangs­röðun sé lyk­ill­inn að jafn­vægis­p­unkti.

En hvað er raun­veru­lega að valda því að skerða hefur þurft afhend­ingu á raf­magni til fiski­mjöls­verk­smiðja? Er ein­fald­lega ekki verið að fram­leiða nóg af því eða býr eitt­hvað allt annað að baki? Og hvað er eig­in­lega átt við með „orku­skorti“ í þessu sam­bandi?

Við skulum byrja á ein­faldri útskýr­ingu á raf­orku­kerfi Íslands í boði upp­lýs­inga­full­trúa Lands­nets, Stein­unnar Þor­steins­dótt­ur:

Steinunn Þorsteinsdóttir upplýsingafulltrúi Landsnets.

Hægt er að skipta afkasta­getu orku­fram­leiðslu­kerf­is­ins í tvo meg­in­þætti. Það er afl­geta (MW) og orku­vinnslu­geta (GWst). Afl­geta virkj­ana fer eftir því hvað margar afl­vélar eru upp­settar í kerf­inu og eru starf­hæfar og eins hvað hægt er að fæða þær af miklu vatni eða jarð­gufu.

Orku­vinnslu­getan er hins vegar háð inn­rennsli í uppi­stöðu­lón sem hægt er að nýta á árs­grund­velli og gufu­öfl­un.

Og þarna erum við komin að því babbi sem komið er í bát­inn.

„Orku­vinnslu­getan á þessu ári er með minna móti þar sem að vatns­árið á suð­ur­hluta lands­ins var lélegt og undir með­al­ári,“ útskýrir Stein­un. Betra vatnsár var á Norð­ur- og Aust­ur­landi, en ekki var mögu­legt að jafna inn­rennsli í lón að fullu vegna tak­mark­ana á byggða­lín­unni. Því er heild­ar­vatns­árið lægra en í með­al­lagi.

Með öðrum orð­um: Of lítið vatn í lónum á Suð­ur­landi. Meira en nóg af vatni í lónum á Norð­ur- og Aust­ur­landi. En ekki hægt að flytja alla ork­una milli lands­svæða og þangað sem eft­ir­spurnin er mest vegna þess að streng­ur­inn – byggða­línan – ræður ekki við það. Í þessu sam­bandi skal minnt á að orku er aðeins hægt að geyma sem vatn í uppi­stöðu­lón­um. Henni er ekki hægt að safna, að minnsta kosti ekki enn­þá, og nota svo þegar þörfin er mest. Raf­magn sem er notað er fram­leitt jafn­óð­um.

Afl­geta er geta virkj­ana til að fram­leiða það afl sem nauð­syn­legt er til að mæta álagi kerf­is­ins hverju sinni. Það sem hefur áhrif á afl­getu eru bil­anir og við­hald afl­véla, stað­setn­ing virkj­ana miðað við álag og flutn­ings­tak­mark­anir í flutn­ings­kerf­inu.

„Vanda­málið núna bygg­ist bæði á aflskorti og orku­skort­i,“ segir Stein­unn. Þrjár vélar eru úti vegna bil­ana og við­halds á Suð­ur- og Suð­vest­ur­landi: Ein í Búr­felli, ein á Nesja­völlum og ein í Svarts­engi sam­kvæmt upp­lýs­ingum sem Kjarn­inn hefur fengið frá orku­fyr­ir­tækj­un­um. Tak­markar þetta það afl sem hægt er að nýta til fram­leiðslu á því svæði.

Þórisvatn fóðrar virkjanakerfið á Þjórsár- og Tungnársvæðinu. Þar er Landsvirkjun með virkjanakerfi sem nú vantar vatn í.
Landsvirkjun

Sam­an­lagt afl þess­ara þriggja bil­uðu véla er 82 MW. Til sam­an­burðar má geta þess að upp­sett afl Vatns­fells­virkj­unar er 90 MW. „Til að bæta upp þennan aflskort þarf því að flytja aflið frá virkj­ana­svæð­inu á Norð­ur- og Aust­ur­landi, en tak­markað er hvað hægt er að flytja milli lands­hluta vegna flösku­hálsa á byggða­lín­unn­i,“ segir Stein­unn.

Hvað varðar orku­vinnslu­getu, þá hefur hið „lé­lega vatns­ár“ áhrif á það hve lengi er hægt að keyra vatns­afls­virkj­anir í fullum afköst­um. „Því er ekki víst að það vatns­magn sem er í uppi­stöðu­lónum og mun renna í þau í vet­ur, muni duga til að anna eft­ir­spurn eftir raf­orku á tíma­bil­in­u,“ útskýrir Stein­unn.

Meira ál, meiri kís­il­málmur

Lög­málið gamla góða um fram­boð og eft­ir­spurn og jafn­vægi þar á milli á hér við. Nú þegar hag­kerfi heims­ins eru að rétta úr kútnum eftir heims­far­ald­ur­inn er eft­ir­spurn eftir fram­leiðslu­vörum, m.a. áli og kís­il­málmi, meiri en í fyrra þegar hún dróst sam­an. Þær verk­smiðjur sem þessi hrá­efni fram­leiða hér á landi vilja því auka afköst sín. Til þess þarf meiri orku. Þær hafa tryggt sér ákveðið magn af for­gangsorku með samn­ingum við orku­fyr­ir­tækin en að auki gera þær sumar hverjar samn­inga til við­bótar um skerð­an­lega orku, samn­inga sem gera bein­línis ráð fyrir því að ef fram­boðið er ekki nægj­an­legt sé afhend­ingin skert.

Slíka samn­inga gera fiski­mjöls­verk­smiðj­urn­ar, sem eðli máls­ins sam­kvæmt eru aðeins reknar hluta úr ári, einnig. Verðið sem greitt er fyrir raf­magnið er lægra í slíkum skerð­an­legum samn­ingum en að sama skapi þá er þetta „ótryggt“ – það er alls ekki full­víst að við­skipta­vin­ur­inn fái það afhent ef þannig aðstæður skap­ast.

Það vill þannig til að þegar fiski­mjöls­verk­smiðj­urnar þurfa mest af raf­orku er eft­ir­spurnin mest. Að vetri til. Í kulda. Í árferði þar sem vilji er til að keyra vélar verk­smiðja á borð við ál- og kís­il­ver á fullu afli. Og í árferði þar sem vatns­bú­skap­ur­inn er undir með­al­lagi. Úrkoman var ekki næg. Jökl­arnir gáfu ekki nógu mikið af sér. Uppi­stöðu­lónin fyllt­ust ekki. Orkan sem þau geyma í vatn­inu því minni.

Loðnuvertíðin er hafin. Tonnin hrúgast um borð í skipin sem flytja þau í bræðslurnar.
Hafrannsóknarstofnun

Flösku­hálsar á byggða­lín­unni gera það að verkum að erfitt er að flytja afl frá Norð­ur- og Aust­ur­landi á svæði sem inni­heldur Blöndu­virkj­un, Kröflu, Þeista­reykja­virkjun og Fljóts­dals­virkjun til Suð­ur- og Suð­vest­ur­lands. Og öfugt ef svo ber und­ir. Flutn­ingur frá norðri og austri til suð­vest­urs fer um flösku­háls í byggða­línu­kerf­inu sem tak­markast við flutn­ing um Blöndulínu 1, í vestur frá Blöndu­virkjun og Fljóts­dals­línu 2 og í austur frá Fljóts­dals­stöð sem í dag­legu tali er kölluð Kára­hnjúka­virkj­un.

Lang­tíma- og skamm­tíma­á­hrif

„Þessar flutn­ings­tak­mark­anir valda ýmis­konar vanda­mál­u­m,“ segir Stein­unn. „Lang­tíma­á­hrifin eru þau að ekki er hægt að full­nýta virkj­anir sem nú þegar eru til staðar í land­inu. Einnig valda þær því að á þeim tíma árs­ins þegar mest inn­rennsli er í uppi­stöðu­lón vatns­virkj­ana, á sumrin og haustin, koma þær í veg fyrir að hægt sé að jafna inn­rennsli í lón eftir lands­hlut­um, en það er gert með því að draga úr afli virkj­ana öðrum megin á land­inu á meðan aðrar virkj­anir eru keyrðar á mesta álagi á meðan á þessu tíma­bili stend­ur.“

Skamm­tíma­á­hrifin eru hins vegar þau að erfitt er að full­nægja þörf fyrir hámarks­á­lag eins og staðan virð­ist vera í dag. Land­virkjun hefur gefið út að fram­leiðslu­getan á Þjórs­ár­svæði sé tak­mörkuð vegna bágrar vatns­stöðu og afl­vélar í Búr­felli sem er ekki í rekstri. Þjórs­ár­svæðið er „vest­an“ við áður­nefndan flösku­háls í flutn­ings­kerf­inu. Það er hins vegar ekki skert fram­leiðslu­geta í virkj­unum Lands­virkj­unar innan svæð­is­ins.

Hin nýja Kröflulína 3 við hlið eldri línu, Kröflulínu 2.
Landsnet

Kára­hnjúka­virkjun er langstærsta virkjun lands­ins og upp­sett afl hennar er 690 MW. Hún er á Aust­ur­landi. Fiski­mjöls­verk­smiðj­urnar eru það einnig. Hvernig má það vera að skerða þurfi afhend­ingu á raf­magni til þeirra fyrst nóg er af vatn­inu til að keyra virkj­un­ina?

„Þrátt fyrir að á Aust­ur­landi sé öfl­ugt kerfi til að fæða fiski­mjöls­verk­smiðj­urnar þá er tengi­punktur flutn­ings­kerf­is­ins á Aust­ur­landi í Skrið­dal sem er utan við þetta virkj­ana­svæð­i,“ svarar Stein­unn. Því eru fiski­mjöls­verk­smiðj­urnar á Aust­fjörðum sömu megin við flösku­háls­inn á byggða­lín­unni og Þjórs­ár­svæð­ið. Afl­flutn­ingur þangað hefur því áhrif á það hve mikið er hægt að flytja af svæð­inu og til ann­arra við­skipta­vina fyrir utan þetta svæð­i.“

Fyr­ir­sjá­an­legur vandi

Hún segir að „svo virð­ist sem aflskortur vegna bil­ana og við­halds afl­véla, ásamt flutn­ings­tak­mörk­unum á byggða­lín­unni valdi því að ekki sé hægt að full­nægja allri raf­orku­þörf í augna­blik­in­u“. Nauð­syn­legt sé að hafa ákveðið „bil“ á milli fram­leiðslu­getu og orku­notk­unar til þess að bregð­ast við óvæntum aðstæðum sem geta mynd­ast í kerf­inu. „Þetta bil hefur verið að minnka tals­vert síð­ustu árin sem þýðir að svig­rúmið sem þarf að vera til staðar er orðið of lítið eins og sýnir sig núna og kerfið ræður þannig ekki við að mæta þessum atvik­um.“

Lands­net hefur haft vax­andi áhyggjur af þessu og í skýrslu sem fyr­ir­tækið gaf út árið 2019 var því lýst að þessi staða væri yfir­vof­andi. Nið­ur­staða skýrsl­unnar var sú að líkur á aflskorti færu yfir við­mið­un­ar­mörk Lands­nets árið 2022 ef ekki kæmi til ný orku­vinnsla fyrir þann tíma. „Nú virð­ist sem sú spá sé að rætast,“ segir Stein­unn.

Flutningskerfi raforku og tengingar þess við virkjanir.
Landsnet

En er það lausnin – að reisa nýjar virkj­an­ir?

„Ekki er nóg að byggja nýja vatns­afls­virkjun eða reisa vind­myllur til að koma í veg fyrir skerð­ingu á raf­magni eða að olía sé notuð í fiski­mjöls­verk­smiðj­u­m,“ skrif­aði Bjarni Bjarna­son, for­stjóri Orku­veitu Reykja­vík­ur, í grein á Vísi. „Raf­­magns­vinnsla úr vatni eða vindi er sveiflu­­kennd. Meðan við stýrum ekki veðr­inu verða sveiflur í afköstum vatns­­afls­­virkj­ana og vind­­myllna.“

Bjarni Bjarnason forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur. Mynd: Anton Brink

Stór­iðj­an, sem nýtir um 80 pró­sent af því raf­magni sem fram­leitt er í land­inu, veit að hún getur ekki fram­leitt á fullum afköstum þegar illa árar í vatns­bú­skapn­um. „Við færum illa með fé og illa með land og nátt­úru ef við virkj­uðum stór­­fellt til þess að stór­iðjan þyrfti ekki að sæta skerð­ingu, sem hún hefur vel að merkja sjálf samið um af fúsum og frjálsum vilja við raf­­orku­fram­­leið­end­­ur.“ Það sama væri hægt að segja um bygg­ingu virkj­ana til að koma alfarið í veg fyrir að skerða gæti þurft raf­magn til fiski­mjöls­verk­smiðja í fram­tíð­inni.

Nú þegar hag­kerfi heims­ins eru að rétta úr kútnum eftir heims­far­ald­ur­inn er meiri eft­ir­spurn eftir raf­orku hér á landi, „en að halda því fram að virkja þurfi ósköpin öll og virkja strax til að við eigum raf­magn á bíl­ana okkar var jafn rangt þá og það er nú,“ skrifar Bjarni.

Brest­ur, ekla, fátækt, harð­rétti, hörgull, mis­brest­ur, nauð(ir), neyð, svelta, van­bún­að­ur, van­efni, vönt­un, þurrð, þörf, örbirgð; líða skort búa við skort.

Þannig er merk­ingu orðs­ins „skort­ur” lýst í Íslenskri sam­heita­orða­bók.

Skortur verður þegar eitt­hvað vant­ar. Þegar eft­ir­spurn er meiri en fram­boð­ið. En er hægt að tala um „orku­skort“ í því ástandi sem nú er komið upp?

Það fer eftir því hvaða skiln­ing fólk setur í það að „skorta“ eitt­hvað. Ef eft­ir­spurn eftir raf­orku, saman hvaðan hún kem­ur, myndi ein verða til þess að „orku­skort­ur“ væri í land­inu, væri sá skortur við­var­andi og allt að því eilíf­ur. Nóg er af eft­ir­spurn­inni, t.d. núna síð­ustu vikur og mán­uði frá fyr­ir­tækjum sem grafa eftir raf­mynt (bitcoin og fleiri teg­und­um) eftir að slík starf­semi var bönnuð í Kína. Lands­virkjun hefur hafnað fleiri slíkum við­skipta­vinum sem og óskum um aukna raf­orku til þessa námu­graftrar hjá núver­andi við­skipta­vin­um.

Auður Önnu Magnúsdóttir formaður Landverndar.

Bjarni skrifar í grein sinni að stutta svarið við því hvort að „raf­­magns­skort­ur“ sé á Ísland­i sé já. Ann­­ars þyrfti ekki að skerða afhend­ingu á raf­­­magni til stórnot­enda. „Ástæðan er ekki sú að það vanti fleiri og stærri virkj­­anir heldur fyrst og fremst skortur á vatni til að keyra þær“. Ofan á það bæt­ist svo veik­leikar í flutn­ings­kerf­inu.

Forð­ast skal að nýta þá stöðu sem upp er komin í orku­málum sem afsökun til að virkja meira, sagði for­maður Land­vernd­ar, Auður Önnu og Magn­ús­dótt­ir, í við­tali á mbl.is. Frekar þurfi að finna lausnir til að geyma orku þegar vel árar. Umræðan þurfi að vera yfir­veguð og „ekki með þeim upp­hróp­unum sem hafa verið núna og full­yrð­ingum um að vanda­málið sé almennur skortur á raf­orku­fram­leiðslu þegar þetta er til­fallandi og líka skýrt af flutn­ings­kerf­in­u“.

For­stjóri Orku­veit­unnar tók í svip­aðan streng í grein sinni. „Það verða byggðar fleiri virkj­­anir á Íslandi en það er mik­il­vægt að hvat­inn til bygg­ingar þeirra sé skýr og gegn­­sær og að umræða sé tekin um orku­­kost­ina á þeim grunn­i,“ skrifar hann. Fara skuli að engu óðs­lega í orku­mál­um. „Þjóðin á að ráða hversu langt við göngum og hve hratt í að virkja þær orku­lindir sem nú eru óbeisl­að­­ar. Ramma­á­ætlun hefur ekki dugað sem verk­­færi til að leiða okkur á rétta slóð. Þar megum við gera bet­­ur.“

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar