Tólf fyrirtæki, sem íslenska ríkið á alfarið eða fer með ráðandi eignarhlut í, greiddu samtals að minnsta kosti 173 milljónir króna í félagsgjöld til Samtaka atvinnulífsins og annarra hagsmunasamtaka sem starfa undir hatti samtakanna á síðasta ári.
Þetta kemur fram í skriflegu svari Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Jóhanni Páli Jóhannssyni þingmanni Samfylkingarinnar um aðild ríkisfyrirtækja að Samtökum atvinnulífsins.
Svör vantar og heildarsumman nálægt 220 milljónum
Íslandsbanki, sem var í fullri eigu ríkisins fram í ágúst í fyrra, greiddi samkvæmt þeim tölum sem birtast í svari ráðherrans mest til hagsmunasamtaka á síðasta ári, eða alls yfir 63 milljónir króna. Þar af voru félagsgjöld til Samtaka fjármálafyrirtækja 46,6 milljónir og aðildargjöld að Samtökum atvinnulífsins 17,2 milljónir.
Landsbankinn greiddi svo 18,1 milljón króna til Samtaka atvinnulífsins en ekki er tekið fram í svari ráðherra hve mikið bankinn greiddi til Samtaka fjármálafyrirtækja, sem bankinn á þó aðild að. Líklega greiddi bankinn ögn meira en Íslandsbanki til þeirra samtaka, en svörin sem ráðherra færir fram í svari sínu voru fengin með fyrirspurnum ráðuneytisins til þeirra fyrirtækja sem um ræðir.
Í svari Landsbankans til Kjarnans segir að upplýsingar um félagsgjöldin til aðildarsamtaka SA hafi vantað í svarið sem bankinn færði ráðuneytinu. „Bankinn mun senda þessar upplýsingar til ráðuneytisins og óska eftir því að svarið verði uppfært,“ segir í skriflegu svari bankans til Kjarnans.
Opinber hlutafélög í SA
Landsvirkjun greiddi 29,1 milljón í aðildargjöld til Samorku og 8,2 milljónir til viðbótar til Samtaka atvinnulífsins og RARIK greiddi 12,3 milljónir til Samorku og 4,4 milljónir til Samtaka atvinnulífsins.
Isavia og Fríhöfnin greiddu svo samanlagt tæpar 14 milljónir í aðildargjöld til Samtaka atvinnulífsins í fyrra. Íslandspóstur greiddi samtökunum svo 6,2 milljónir í félagsgjöld.
80 milljónir beint til SA og rest til aðildarsamtaka
Af þessum alls rúmlega 200 milljónum króna sem fyrirtæki í eigu ríkisins greiddu til Samtaka atvinnulífsins og aðildarsamtaka þeirra fóru tæplega 81 milljón beint til Samtaka atvinnulífsins.
Samkvæmt ársreikningi samtakanna voru tekjur samtakanna alls rúmar 810 milljónir árið 2020 og má því ætla að ríkisfyrirtæki hafi staðið undir hátt í tíu prósentum af tekjum Samtaka atvinnulífsins árið 2021, ef gert er ráð fyrir því að tekjurnar hafi vaxið hóflega á milli ára.
Ríkisfjölmiðillinn í Samtökum atvinnulífsins
Ríkisútvarpið á aðild að Samtökum atvinnulífsins og greiddi þangað 5,7 milljónir króna í félagsgjöld í fyrra. Flestir stærstu fjölmiðlar landsins hafa verið aðilar að Samtökum atvinnulífsins, en reyndar var sagt frá því á dögunum á fjölmiðlafyrirtækið Torg, útgefandi Fréttablaðsins, Hringbrautar og DV, hefði ákveðið að segja sig úr Samtökum verslunar og þjónustu og þar með úr Samtökum atvinnulífsins.
„Fyrst og fremst er þetta vegna þess að okkur finnst ekki fara vel á því að fjölmiðill eigi hagsmuni í hagsmunasamtökum, ef svo má segja, en þurfi svo kannski að geta fjallað um þau og skýrt frá ýmsum málum þeim tengdum. Við viljum ekki vera undir þá sök seldir að vera mögulega með einhvers konar bias í þeim efnum,“ var haft eftir Jóni Þórissyni forstjóra Torgs í frétt Stundarinnar um þær vendingar.