Samkvæmt skriflegu svari fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn Elsu Láru Arnardóttur, þingkonu Framsóknarflokksins, hefur ríkissjóður greitt 153 milljarða króna í vexti og verðbætur vegna lána, sem tekin voru til endurreisnar á fjármálakerfinu frá bankahruni í október árið 2008 til dagsins í dag. Kjarninn greindi frá málinu í gær.
Gylfi Magnússon, dósent í viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, segir á Facebook síðu sinni að talan gefi kolranga mynd af raunverulegum kostnaði ríkisins vegna falls fjármálakerfisins.
Í stöðufærslu skrifar Gylfi: „Tökum t.d. féð sem lagt var inn í annars vegar Seðlabankann og hins vegar Landsbankann. Í báðum tilfellum gaf ríkissjóður út skuldabréf sem lagt var inn í viðkomandi banka. Seðlabankinn er að öllu leyti í eigu ríkissjóðs og Landsbankinn að nær öllu leyti. Það þýðir að ríkið er að greiða sjálfu sér vexti. Bæði útgjöldin og tekjurnar lenda því hjá ríkinu. Ef gerður væri samstæðureikningur fyrir Ríkið Group þá myndu þessar vaxtagreiðslur þurrkast út. Þetta er því ekki raunverulegur kostnaður fyrir ríkið, þótt hann virðist það eins og ríkisreikningur er tekinn saman. Þetta eru millifærslur innan opinbera geirans.“
Gylfi segir tölurnar ekki gefa rétta mynd af því mikla tjóni sem ríkið varð fyrir vegna bankahrunsins. „...sérstaklega þegar Seðlabankinn fór á hliðina vegna þess að hann hafði tekið gölluð veð í aðdraganda hruns, en þessar tölur gefa ekki rétta mynd af því tjóni (það var raunar mun meira en 153 milljarðar).“
Stöðuuppfærsla Gylfa Magnússonar á Facebook.