Ríkissaksóknari hyggst áfrýja sýknudómi yfir lögreglumanninum Gunnari Scheving Thorsteinssyni, í LÖKE-málinu svokallaða, til Hæstaréttar Íslands.
Gunnar Scheving var handtekinn í aprílmánuði árið 2014 og ákærður í kjölfarið fyrir að hafa flett upp nöfnum 45 kvenna í málaskrá lögreglu, svokölluðu LÖKE-kerfi, án þess að það tengdist störfum hans sem lögreglumaður sem og fyrir að miðla persónuupplýsingum sem leynt áttu að fara til þriðja aðila.
Vegna ágalla á rannsókn málsins ákvað ríkissaksóknari að fella niður veigamesta ákæruliðinn í byrjun mars, en fór fram á að ákvörðun refsingar yrði frestað yrði Gunnar sakfelldur fyrir seinni ákæruliðinn, sem þýðir að honum yrði ekki gerð refsing nema hann gerðist aftur brotlegur við lög. Héraðsdómur sýknaði síðan Gunnar í málinu þann 17. mars síðastliðinn og dæmdi að málskostnaður upp á rúmar fjórar milljónir króna yrði greiddur úr ríkissjóði.
Gunnar Scheving hóf aftur störf hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í kjölfar sýknudómsins.
„Embættið að reyna að bjarga andlitinu í fjölmiðlum“
Hvorki Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari né Kolbrún Benediktsdóttir, sem sótti málið fyrir hönd embættisins, hafa svarað fyrirspurnum Kjarnans vegna málsins í dag. Samkvæmt áfrýjunarstefnu málsins, sem Kjarninn hefur undir höndum, gerir embætti ríkissaksóknara þá kröfu að Gunnar verði sakfelldur fyrir seinni ákæruliðinn og hann dæmdur til refsingar.
Garðar St. Ólafsson, verjandi Gunnars, á von á því að þetta þýði að ákæruvaldið muni gera sömu kröfur fyrir Hæstarétti og fyrir Héraðsdómi, það er að ákvörðun refsingar verði frestað ef sakfellt verður og málskostnaður falli á ríkissjóð. „Miðað við fordæmi ríkissaksóknara í sambærilegum málum virðist áfrýjun í málinu snúast meira um að reyna að bjarga andliti embættisins í fjölmiðlum en nokkuð annað.Getur ríkissaksóknari útskýrt hvernig þetta meinta brot réttlætir bæði ákæru og áfrýjun en ekkert gerist þegar lögreglustjórar sannanlega deila upplýsingum sem bundnar eru þagnarskyldu?“