Ríkissaksóknari hefur ákveðið að falla frá veigamesta ákærulið í LÖKE-málsins svokallaða, þar sem lögreglumanninum Gunnari Scheving Thorsteinssyni var gefið að sök að hafa flett upp nöfnum 45 kvenna í málaskrá lögreglunnar (LÖKE) og skoðað þar upplýsingar um konurnar, án þess að uppflettingarnar tengdust starfi hans sem lögreglumanns. Í ákæru málsins var Gunnar Scheving sakaður um að hafa þannig misnotað stöðu sína í því skyni að afla sér upplýsingar um konurnar.
Aðalmeðferð í málinu er fyrirhuguð á morgun fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, en eftir stendur ákæruliður þar sem Gunnar er sakaður um að hafa miðlað persónuupplýsingum sem leynt áttu að fara til þriðja aðila.
Tekinn af lífi í fjölmiðlum
Málið var töluvert til umfjöllunar í fjölmiðlum á sínum tíma, en þar var meðal annars greint frá því hvernig Gunnar Scheving var handtekinn fyrir framan vinnufélaga sína. Í fjölmiðlum var einnig látið að því liggja að hann hafi notfært sér aðgang sinn að upplýsingakerfi lögreglunnar til að grafast fyrir um fórnarlömb kynferðisofbeldis.
Gunnar hefur ávallt neitað sök í málinu og lögmaður hans Garðar Steinn Ólafsson hefur haldið uppi harðri gagnrýni á lögreglurannsókn málsins. Þess má geta að rannsókn málsins var á forræði lögreglustjórans á Suðurnesjum undir stjórn Öldu Hrannar Jóhannsdóttur, aðstoðarlögreglustjóra hjá embættinu, og núverandi aðstoðarlögreglustjóra hjá lögreglu höfuðborgarsvæðisins. Alda Hrönn var ráðin án auglýsingar og starfar nú við hlið Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins, sem var áður yfirmaður Öldu Hrannar á Suðurnesjum.
Sakar lögreglu um að hafa ekki rannsakað málið
Garðar Steinn Ólafsson, lögmaður Gunnars Scheving, sakar lögregluna á Suðurnesjum um að hafa vanrækt að rannsaka málið til hlítar og segir að það hafi tekið tæknimann Ríkislögreglustjóra einn dag að komast að því að ásakanir í málinu ættu ekki við rök að styðjast.
„Fjölmiðlar virðast hafa notið þess að krossfesta saklausan mann byggt á leka rannsakenda um meinta rannsókn sína. Nú hefur komið í ljós að það fór aldrei fram rannsókn. Skjólstæðingur minn var einfaldlega borinn sökum af aðstoðarlögreglustjóra og saksóknari trúði orðum hans um að ásakanirnar hefðu verið rannsakaðar og að gögn málsins styddu þær,“ segir Garðar Steinn í samtali við Kjarnann.
„Við höfum ítrekað krafist þess að framkvæmd yrði rannsókn á fjarstæðukenndum samsæriskenningum aðstoðarlögreglustjóra. Alltaf var viðkvæðið að það hafi verið gert. Svo þegar saksóknari settist niður til að undirbúa aðalmeðferð í málinu hefur hún lesið gögn málsins í fyrsta skipti. Þá hefur hún uppgötvað að ákæra hafi verið gefin út á fölskum forsendum,“ segir Garðar Steinn.
Þá gagnrýnir hann saksóknara fyrir að falla ekki líka frá síðari ákærulið málsins, enda hefði slíkt í för með sér verulega álitshnekki fyrir lögregluna á Suðurnesjum.
Kolbrún Benediktsdóttir, saksóknari hjá Ríkissaksóknara, hafði ekki svarað fyrirspurn Kjarnans um ástæður þess að fallið var frá fyrri ákærulið málsins, við vinnslu fréttarinnar.