Sigríður Friðjónsdóttir, ríkissaksóknari, vísar á bug ásökunum Jóns Óttars Ólafssonar, fyrrverandi starfsmanns hjá Sérstökum saksóknara, um að hún hafi látið undir höfuð leggjast að rannsaka ábendingar hans um að starfsmenn sérstaks saksóknara fremdu lögbrot með því að hlera símtöl sakborninga við verjendur. Ávirðingar Jóns Óttars komu fram í viðtali við hann sem birtist í Fréttablaðinu á laugardaginn. Þar kveðst Jón Óttar hafa bent ríkissaksóknara á meint lögbrot innan embættis Sérstaks saksóknara í greinargerð árið 2012.
"Hún hefði alveg getað rannsakað þetta"
Jón Óttar segist hafa orðið þess strax áskynja að sérstakur saksóknari hleraði símtöl verjenda við skjólstæðinga, en slíkt er óheimilt samkvæmt sakamálalögum. Hann segist hafa nokkrum sinnum orðið vitni að því að þegar símtöl lögmanna hafi verið spiluð í hátalara á borði svo saksóknarar og aðrir gætu heyrt hvað mönnum fór á milli, er lögmennirnir ráðlögðu sakborningum og fóru yfir vörn þeirra. "Stemmingin í kringum þetta var eins og hjá krökkum í sælgætisbúð; nú vissu menn betur hvernig verjendur sakborninga myndu stilla vörninni upp," segir Jón Óttar.
Í áðurnefndu viðtal segir Jón Óttar: "Það er í greinargerðinni okkar nákvæm lýsing á þessu, að það er verið að hlusta á símtöl lögmanna. Samt segist hún ekki hafa haft vitneskju um þetta fyrr en í fyrra og þá hafi öll málin verið fyrnd. Árið 2012 voru málin ekkert fyrnd. Hún hefði alveg getað rannsakað þetta," segir Jón Óttar.
Segir að farið hafi verið yfir ábendingarnar
Sigríður hafnar þessum ávirðingum í yfirlýsingu sem hún sendi frá sér í dag. Hægt er að lesa yfirlýsinguna í heild sinni á vef ríkissaksóknara hér.
Í yfirlýsingunni segir:„Ríkissaksóknari staðfestir að í þeirri greinargerð koma fram ábendingar um misfellur við meðferð rannsóknargagna af hálfu starfsmanna við embætti sérstaks saksóknara. Þær ábendingar samrýmast ekki að öllu leyti því sem fram kemur í viðtali við annan af sakborningunum, Jón Óttar Ólafsson, í Fréttablaðinu 13. september sl. og aðrir fjölmiðlar hafa fjallað um á síðustu dögum. Við rannsókn og meðferð málsins hjá ríkissaksóknara á árinu 2012 og í ársbyrjun 2013 var farið yfir umræddar ábendingar, meðal annars við skýrslutökur af öðrum starfsmönnum embættis sérstaks saksóknara. Niðurstaða ríkissaksóknara á þeim tíma var að ekki væri grundvöllur fyrir sérstakri rannsókn eða athugun vegna ábendinganna."
Sigríður segir einnig að hún hafi, frá því að hún var skipuð í starfið 2011, leitast við að koma á eftirliti með hlustunum lögreglustjóra og sérstaks saksóknara. Í þeirri viðleitni hafi hún meðal annars krafið embættin um gögn og upplýsingar því tengdu. „Þau svör sem borist hafa frá embætti sérstaks saksóknara hafa ekki gefið tilefni til að ætla að þar sé ekki farið eftir ákvæðum laga um meðferð sakamála."