Meirihluti fjárlaganefndar, sem samanstendur af fulltrúum stjórnarflokkanna þriggja í nefndinni, hefur lagt til að 700 milljónir króna verði greiddar úr ríkissjóði til stuðnings bændum vegna hækkunar áburðarverðs í kjölfar heimsfaraldursins. Greiða á fjármunina í gegnum búvörusamninga.
Í nefndaráliti meirihluta nefndarmanna úr Vinstri grænum, Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki um fjárlagafrumvarpið fyrir aðra umræðu er gert grein fyrir breytingartillögu þess efnis.
Þar segir að tillagan byggi á upplýsingum um fyrirséðar verðhækkanir á áburði. „Áburðarvísitala Alþjóðabankans hefur hækkað um 93% frá lokum síðasta áburðartímabils, m.a. vegna hækkunar á jarðgasi og framboðsáhrifum vegna heimsfaraldurs. Komi sú hækkun að öllu leyti fram í áburðarkaupum bænda fyrir árið 2022 má áætla að kostnaður bænda aukist um allt að 2,5 mia.kr. að óbreyttu magni. Gera má ráð fyrir að notkun áburðar verði minni á næsta ári vegna þessa. Bændasamtök Íslands áætla að áburðarverð hækki um 60% og aukinn kostnaður bænda geti numið 1,5 mia.kr. Tillögunni er ætlað að koma til móts við þessa hækkun.“
„Afar mikilvægt loftslags- og fæðuöryggismál“
Bændasamtök Íslands vöktu athygli á hækkunum á áburðarverði í umsögn sinni um fjárlagafrumvarpið sem skilað var inn fyrr í mánuðinum. Þar sagði að hækkanirnar væru án hliðstæðu og kölluðu á heimildir ríkisins til þess að geta gripið inn í ef að þær hækkanir raungerast og vegi að fæðuöryggi.
Undir umsögnina skrifaði Vigdís Häsler, framkvæmdastjóri Bændasamtakanna. Áður en hún var ráðin í það starf var Vigdís starfsmaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins á Alþingi þar sem hún kom að undirbúningi fyrir þingmenn við gerð þingmála.
Bændablaðið, sem er í eigu Bændasamtakanna, greindi frá því í síðustu viku að stefnt sé að því að reisa umhverfisvæna áburðarverksmiðju á Reyðarfirði. Gangi áætlanir eftir gæti hún verið komin í gagnið eftir fimm eða sex ár.