Ríkissjóður keypti í gær eigin skuldabréf að nafnvirði 400 milljónir Bandaríkjadollara, jafnvirði um 54 milljarða króna. Með kaupunum grynnkar á erlendum skuldum ríkissjóðs, en samkvæmt svörum Seðlabankans við fyrirspurn Kjarnans þá notaði ríkissjóður innstæður sínar í erlendum gjaldeyri hjá Seðlabankanum til þess að greiða fyrir endurkaupin. Gjaldeyrisforðinn lækkar því sem nemur endurkaupunum.
Áætla má að vaxtakostnaður sem sparist við endurkaupin nemi um einu prósenti af heildarfjárhæð, eða um hálfum milljarði króna.
Skuldabréfaflokkurinn, sem alls er einn milljarður dollara að stærð, var gefin út árið 2011 og er á gjalddaga í júní 2016. Áður hafði ríkissjóður keypt til baka um 97 milljónir dollara af bréfunum á opnum markaði en í gær var um að ræða útboð. Því er um helmingur flokksins enn útistandandi, um 503 milljónir dollara, og í eigu fjárfesta.
„Endurkaupin eru hluti af lausafjár- og skuldastýringu. Þar sem skuldin var orðin að skammtímaskuld, gjalddagi innan árs og ríkissjóður á nægar gjaldeyrisinnstæður hjá Seðlabanka Íslands á móti skuldinni var ákveðið að nýta forða til að draga úr stærð gjalddagans í júní 2016,“ segir í svari Seðlabankans við spurningum Kjarnans um kostnað við endurkaupin. Skuldabréfin voru endurkeypt á genginu 103,75 og kostnaður við endurkaupin þannig um 56 milljarðar króna.
Í svari frá Seðlabankanum kemur fram að endurkaupin dragi úr endurfjármögnunaráhættu, en skuldabréfaflokkurinn er sem fyrr greinir á gjalddaga í júní á næsta ári. Þá sé nokkuð svigrúm til vaxtasparnaðar fyrir ríkissjóð með kaupunum, en skuldabréfaflokkurinn bar 4,875 prósent vexti og eru skammtímavextir nokkuð lægri. Bent er á að innstæðuvextir í Bandaríkjadollurum eru í dag um 0,1 prósent. Út frá því má áætla að vaxtakostnaður lækki um 500 milljónir króna.
Skuldastaða ríkissjóðs lækkar
Eftir endurkaupin er skuldastaða ríkissjóðs 400 milljónum dollara lægri, eða um 54 milljörðum króna lægri. Skuldir lækka úr 1.474 milljörðum króna í um 1.420 milljarða króna. Fram kemur í svari Seðlabankans að vergar skuldir ríkissjóðs í hlutfalli af vergri landsframleiðslu lækki við þetta um 2,5 prósent og fara í 64,5 prósent. Endurkaupin eru sögð hluti af stærri stefnu um skuldastýringu ásamt ráðstöfun forða og feli í sér hagræðingu og nokkurt svigrúm til sparnaðar.