Fjármála- og efnahagsráðuneytið sendi í gær frá sér fréttatilkynningu þess efnis að ríkissjóður hefði með góðum árangri gefið út skuldabréf í evrum. Um var að ræða fyrstu opinberu útgáfu ríkissjóðs í Evrópu frá árinu 2006.
Útgáfan var upp á 750 milljónir evra, um 116 milljarða króna, og er til sex ára. Andvirðið á að notast til að forgreiða tvíhliða lán sem Norðurlöndin veittu Íslendingum í tengslum við efnahagsáætlun íslenskra stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í lok árs 2008. Vextir nýju lánanna eru um eitt prósent lægri en vextir gömlu lánanna og því minnkar vaxtakostnaður ríkisins um rúmlega 1,1 milljarð króna á ársgrundvelli við töku nýju lánanna.
Vaxtagjöld ríkissjóðs eru þó enn mjög há, enda skuldir hans enn miklar í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008. Í fjárlagafrumvarpi ársins 2014 voru vaxtagjöld ríkissjóðs á því ári sögð vera 75,5 milljarðar króna.
[embed]http://issuu.com/kjarninn/docs/2014_07_03/1[/embed]
Góðar fréttir fyrir bankanna
Vel heppnuð útgáfa ríkissjóðs, og sú mikla umframeftirspurn sem var eftir henni, eru góðar fréttir fyrir íslensku bankanna. Þeir hafa undanfarin ár verið að feta sig inn á erlenda fjármögnunarmarkaði og þurft að greiða hátt verð fyrir þá fjármögnun sem þeir hafa sótt þangað, þ.e. þegar slíkt hefur tekist. Á sama tíma og bankar frá Írlandi, Ítalíu, Spáni og Grikklandi, evrulöndum sem höfðu lent í gríðarlegum efnahagslegum hremmingum, gátu gefið út skuldabréf sem lækkuðu fjármagnskostnað þeirra hefur útgáfa íslensku bankanna fyrst og síðast verið til að sýna fram á þeir gætu gefið út bréf úti í hinum stóra heimi.
Í byrjun maí tilkynnti Arion banki til að mynda að hann ætlaði að fresta 300 til 500 milljón evra útgáfu í Evrópu, sem átti að vera til þriggja ára, vegna þess að kjörin sem bankanum bauðst voru allt of dýr.
Þær hindranir sem helst hafa staðið í vegi fyrir að íslensku bankarnir geti fengið boðleg kjör eru að mestu leyti heimatilbúnar. Íslenska krónan, lánshæfismat íslenska ríkisins og skortur á trúverðugri áætlun um losun gjaldeyrishafta eru atriði sem skiptu þar miklu máli. Með vel heppnaðri útgáfu ríkissjóðs eru vonir bundnar við það innan íslenska fjármálageirans að kjör banka muni batna töluvert í kjölfarið.