Ríkisskattstjóri hefur birt nýtt álit sitt um skattalega meðferð krafna sem ekki fást greiddar við gjaldþrotaskipti fallinna fjármálafyrirtækja. Þar segir að skuldir umfram eignir sem ekki fást greiddar við uppgjör á þrotabúi við gjaldþrotaskipti "teljist ekki til skattskyldra tekna sem eftirgjöf skulda."
Þessi niðurstaða er þvert á niðurstöðu bindandi álits sem embættið gaf út 22. apríl síðastliðinn þar sem sagði að skuldir sem ekkert fæst upp í í þrotabúum eigi að vera skattlagðar eins og tekjur. Ljóst er að slík túlkun hefði tæmt mörg þrotabú og lítið eða ekkert hefði orðið eftir til skiptanna fyrir kröfuhafa þeirra eftir að skatturinn hefði verið greiddur. Viðskiptablaðið reiknaði til dæmis út að þrotabú föllnu bankanna hefðu þurft að greiða íslenska ríkinu samtals allt að 1.868 milljarða króna í tekjuskatt samkvæmt túlkuninni.
Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri er spurður út í þessi sinnaskipti í Morgunblaðinu í dag. Þar segir hann að nauðsynlegt hafi verið að draga fyrra álit til baka og gaumgæfa túlkun málsins frekar. "Þegar búið var að gefa álitið út var það niðurstaða Ríkisskattstjóra að það væri ekki nægjanlega yfirfarið. Það var farið yfir það og niðurstaðan er þessi. Menn geta velt fyrir sér hvort menn hafi haft rangt fyrir sér. Það er algengt í dómaframkvæmd að dómur er kveðinn upp í héraði og svo er Hæstiréttur annarrar skoðunar. Í þessu tilviki koma fleiri aðilar að málinu innan embættisins, utanaðkomandi ráðgjöf er fengin og málið skoðað nánar. Þá í kjölfarið varð niðurstaðan sú sem birt er í nýju áliti."
Skiluðu bindandi áliti en drógu það til baka
Embætti Ríkisskattstjóra gaf út fyrra bindandi álitið, að beiðni slitastjórnar SPB, 22. apríl síðastliðinn. Þann 13. maí, eftir að fjölmiðlar höfðu fjallað um víðtækar afleiðingar þess, dró embættið álitið skyndilega til baka og sagði von á nýju áliti.
Í tilkynningu sem Ríkisskattstjóri sendi frá sér vegna þessa sagði: "Komið hefur í ljós að undirbúningi þess var áfátt þar sem í álitinu er ekki nægjanlega glöggur munur gerður á eftirgefnum skuldum rekstraraðila og ógreiddum kröfum við lok gjaldþrotaskipta. Verður því nýtt álit gefið út innan fárra daga[...] Ríkisskattstjóri biðst velvirðingar á óþægindum vegna þessa."