Ný ríkisstjórn Grikklands tilkynnti í morgun að einkavæðing á tveimur stórum fyrirtækjum yrði stöðvuð strax og uppsagnir þúsunda opinberra starfsmanna yrðu dregnar til baka með lagasetningu. Sala á fyrirtækjunum tveimur og uppsagnirnar voru skilyrði samkomulags við Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn fyrir lánveitingum. Þá hefur verið greint frá því að ríkisstjórnin ætli að gera það að sínu fyrsta lagafrumvarpi að hækka lágmarkslaun í landinu á nýjan leik.
Það má því segja að ríkisstjórnin hafi byrjað með hvelli, en fyrsti ríkisstjórnarfundurinn var haldinn í morgun. Þar sagði Alexis Tsipras, nýr forsætisráðherra, að ríkisstjórnin ætti einstaklega erfitt verk fyrir höndum. Ætlunin væri alls ekki að fara í átök við Evrópusambandið sem myndu enda með sameiginlegri tortímingu, „en við munum ekki halda áfram kúgunarstefnu.“
Þá greindi hann frá því að Jeroen Dijsselbloem, fjármálaráðherra Hollands og forseti evruhópsins, er á leið til Aþenu og mun funda með grískum stjórnvöldum á föstudag. Það verður væntanlega fyrsti formlegi fundurinn um deilur milli Grikkja og lánardrottna þeirra.
Núverandi samkomulagi við ESB og AGS lýkur í lok febrúar og enn á eftir að greiða 1,8 milljarð evra til Grikklands samkvæmt því. Það er þó skilyrðum háð og óvíst hvort upphæðin verður greidd nú.
Greek markets today. high whistle pic.twitter.com/cjU9v2DJLZ
— Katie Martin (@katie_martin_FX) January 28, 2015
Yfirlýsingar morgunsins hafa haft miklar afleiðingar á mörkuðum. Hlutabréf í stærstu bönkum Grikklands, Piraeus og Eurobank, hafa til að mynda lækkað um 20 prósent það sem af er degi.
Greek stocks -7% and counting pic.twitter.com/SUzan3SvOZ — Jonathan Ferro (@FerroTV) January 28, 2015