Fylgi Sjálfstæðisflokksins dalar nokkuð og mælist 20,9 prósent í nýrri könnun frá Maskínu, sem greint var frá í kvöldfréttum Stöðvar 2. Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar gæti flokkurinn ekki myndað ríkisstjórn með Vinstri grænum og Framsóknarflokki eftir komandi kosningar, en samkvæmt útreikningum í frétt Stöðvar 2 fengju stjórnarflokkarnir einungis 30 þingmenn kjörna.
Vinstri græn mælast með 14,1 prósent fylgi í könnun Maskínu og Samfylkingin með 13,7 prósent. Þar næst koma Píratar með 12,7 prósent fylgi og Viðreisn með 12,3 prósent. Framsókn mælist síðan með 9,9 prósent og Sósíalistaflokkurinn með 6,3 prósent, sem er tveimur prósentustigum meira en í síðustu mælingu Maskínu.
Miðflokkurinn fengi 5,5 prósent atkvæða ef niðurstöður kosninga yrðu í takt við niðurstöður þessarar könnunar Maskínu og Flokkur fólksins mælist með 4,2 prósent.
Flokkur fólksins fengi ekki þingmann, samkvæmt útreikningum í frétt Stöðvar 2. Þess ber þó að geta að tekið var fram í fréttinni að of fáir þátttakendur hefðu tekið þátt í könnuninni til að þeir útreikningar gætu talist „nákvæm vísindi.“
Fjóra flokka þyrfti til að ná meirihluta
Samkvæmt niðurstöðum þessarar könnunnar og útreikningum sem settir eru fram í frétt Stöð 2 um væntan þingmannafjölda flokkanna þyrfti fjóra flokka að lágmarki til þess að mynda ríkisstjórn sem hefði meirihluta á þingi.
Ef Viðreisn kysi að hlaupa undir bagga með núverandi ríkisstjórnarflokkum yrði sú stjórn með 38 þingmenn og rúman þingmeirihluta.
Ef hins vegar Vinstri græn, Samfylking, Píratar og Viðreisn myndu fara í samstarf, rétt eins og flokkarnir gera í borgarstjórn Reykjavíkur, hefði sú ríkisstjórn 35 þingmenn og einnig rúman meirihluta á þingi, samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar.
Athugasemd ritstjórnar: Í fyrri útgáfu fréttarinnar var sú ályktun dregin að 4,2 prósenta fylgi myndi ekki duga Flokki fólksins til þess að fá þingmann kjörinn. Ekki er hægt að fullyrða það að óathuguðu máli, þar sem flokkar geta fengið kjördæmakjörna þingmenn án þess að fá yfir 5 prósent atkvæða á landsvísu. Tekið er fram í frétt Stöðvar 2 að útreikningar á þingmannafjöldanum séu ekki „nákvæm vísindi“.