Ágústa Ágústsdóttir varaþingmaður Miðflokksins segir að „við ríka þjóðin í norðri“ séum virkir þátttakendur í eyðingu landa og ógn við líf fólks í suðri til þess eins að „geta aðlað okkur sem hina hvítu riddara grænu orkubyltingarinnar“ eins og um sérstaka ólympíugrein væri að ræða. Þar ríði yfirborðskenndin um á kostnað innviðanna sjálfra hjá þeim sem stjórna.
Þetta kom fram í máli hennar undir liðnum störf þingsins á Alþingi í gær.
Hóf hún ræðu sína á að segja að í gegnum árin hefði það æ oftar vakið furðu hennar að sitjandi ríkisstjórnir hefðu aldrei lagt áherslu á „plan B“ fyrir íslenska þjóð á virkri eldfjallaeyju í Norður-Atlantshafi, hvort sem um væri að ræða út frá náttúruhamförum eða stríðsástandi; eyju stútfullri af náttúruauðlindum jafnt á landi sem í sjó.
„Í dag eru orkuskiptin fremst á oddinum þar sem rafmagnsbílar og vindmyllur eru tignuð sem hið eina sem bjargað geti okkur frá glötun. Lífsnauðsynlegt er að nýta okkar innlendu orku til þess að við getum orðið eins sjálfbær og mögulegt er. Það á að vera skylda hverrar þjóðar,“ sagði hún.
Þröngsýn hugsun að setja öll eggin í sömu körfuna
Ágúst telur það bera vott um fátæka og þröngsýna hugsun þegar öll eggin eru sett í sömu körfuna.
„Samkvæmt mati Alþjóðaorkustofnunarinnar mun eftirspurnin eftir fágætum jarðmálmum fjórfaldast á heimsvísu fyrir árið 2040. Enginn iðnaður er jafn mengandi fyrir umhverfið eins og námuiðnaður. Þá má benda háttvirtum þingmönnum á að á heimsvísu í dag eru í kringum 32.000 eitruð risastöðuvötn eða lón, sem er afleiðing þess sem við meðal annars köllum græn orkuskipti. Vegna eftirspurnar munu námur heimsins aldrei ná að fóðra slíkar kröfur og því eru fyrirtæki eins og til dæmis Deep Green og UK Seabed Resources löngu byrjuð að kanna möguleikann á að hagnýta sjávarbotninn til námuvinnslu.
Það er kaldhæðni að hugsa til þess að á COP26 ráðstefnunni í Glasgow skrifuðu um 100 þjóðir undir samning þar sem vinna á gegn eyðingu regnskóganna. En á sama tíma eru þessar sömu þjóðir í raun að vinna að eyðingu þeirra vegna orkuskiptanna. Við ríka þjóðin í norðri erum virkir þátttakendur í eyðingu landa og ógn við líf fólks í suðri til þess eins að geta aðlað okkur sem hina hvítu riddara grænu orkubyltingarinnar eins og um sérstaka ólympíugrein sé að ræða. Þar ríður yfirborðskenndin um á kostnað innviðanna sjálfra hjá þeim sem stjórna,“ sagði hún.
Lauk Ágústa máli sínu á því að segja að orkuskiptin myndu aldrei leysa loftslagsvanda heimsins. „Þau munu hins vegar gera okkur mun háðari löndum eins og Kína sem ræður á einn eða annan hátt yfir um 80 prósent allrar námuvinnslu heims á fágætum jarðmálmum. Ríkisstjórnin er fátæk og skyni skroppin, og skortir skynsemi.“