Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar frá 30. nóvember segir að skattmatsreglur verði endurskoðaðar og að komið verði í veg fyrir „óeðlilega og óheilbrigða hvata til stofnunar einkahlutafélaga“. Þar segir að enn fremur verði regluverk í kringum tekjutilflutning „tekið til endurskoðunar til að tryggja að þau sem hafa eingöngu fjármagnstekjur reikni sér endurgjald og greiði þannig útsvar.“
Engar frekari skýringar eru gefnar í sáttmálanum á því hvernig endurmat á skattmatsreglum eigi að fara fram, hvaða óeðlilegu og óheilbrigðu hvata eigi að koma í veg fyrir né hvernig tryggja eigi að þeir sem hafi eingöngu fjármagnstekjur verði látnir greiða útsvar og þeirra mála sem er að finna á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar bera það með sér að fjalla um ofangreind atriði.
Tók 28 daga að fá svar
Sem stendur er ekki starfandi sérstakur upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar og því sendi Kjarninn fyrirspurn þar sem óskað var frekari skýringar á umræddri endurskoðun, og því hvaða óeðlilegu og óheilbrigðu hvata þyrfti að koma í veg fyrir, eða hvernig eigi að láta þá sem hafa eingöngu fjármagnstekjur greiða útsvar, til upplýsingafulltrúa forsætisráðuneytisins þann 3. janúar síðastliðinn. Svar barst degi síðar, þar sem staðfest var að fyrirspurnin hafði fengið málanúmer, og í því stóð: „Umrætt verkefni í stjórnarsáttmála hefur verið skilgreint hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Erindi þitt er því hér með framsent þangað.“
Fjármála- og efnahagsráðuneytið svaraði Kjarnanum nákvæmlega viku eftir að fyrirspurnin var send frá forsætisráðuneytinu til þess, þann 11. janúar 2022. Í svarinu sagði einfaldlega: „Ekki tekst að ljúka svari til þín fyrir tilskilinn frest en ráðuneytið stefnir að því að hafa lokið við að svara þér fyrir lok næstu viku.“
Þegar næstu viku lauk hafði ekkert svar borist og Kjarninn sendi ítrekun á ráðuneytið 25. og 28. janúar. Efnislegt svar barst loks mánudaginn 31. janúar, 28 dögum eftir að upprunaleg fyrirspurn var send á forsætisráðuneytið.
Hluta fyrirspurnar vísað aftur til ráðuneytis sem gat ekki svarað henni
Í svari fjármála- og efnahagsráðuneytisins sagði að unnið væri að því að skipta verkefnum stjórnarsáttmálans niður á ráðuneytin. „Ekki er komin endanleg mynd á útfærslu verkefna, en gera má ráð fyrir að verkefnið sem þú nefnir komi í hlut fjármála- og efnahagsráðuneytisins og e.t.v. í samvinnu við önnur ráðuneyti. Ekki liggur fyrir mat á tekjum sem kunna að leiða af einstökum breytingum, enda skammt um liðið frá því að sáttmálinn var birtur.“
Þar sagði einnig að ráðuneytið gæti ekki „svarað því hvaða hvata ríkisstjórnin telur „óeðlilega og óheilbrigða“, og þarf upplýsingafulltrúa ríkisstjórnarinnar eða eftir atvikum FOR [forsætisráðuneytið] að meðhöndla slíka fyrirspurn.“
Vert er að ítreka að fyrirspurn Kjarnans var upphaflega send á forsætisráðuneytið sem beindi henni til fjármála- og efnahagsráðuneytisins, sem segir nú að forsætisráðuneytið eigi að svara fyrirspurninni.