Ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hefur afar rúman þingmeirihluta, jafnvel yfir 40 þingmenn, samkvæmt þeim atkvæðum sem talin höfðu verið um kl. 1 í nótt.
Útlit er fyrir að það verði ekki níu flokkar á þingi, heldur mögulega átta eða sjö, en Miðflokkurinn og Sósíalistaflokkurinn eru báðir afar tæpir á að ná inn þingmanni og voru ekki yfir 5 prósenta markinu þegar klukkan var rétt rúmlega 1. Þá var Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins þó inni sem kjördæmakjörinn þingmaður í Norðausturkjördæmi.
Ef þetta verður niðurstaðan yrði það til þess að stærri flokkarnir á þingi fengju fleiri þingmenn og talsverður hluti atkvæða félli niður dauð, eða hátt í 10 prósent.
Framsóknarflokkurinn sigurvegari en stjórnarflokkarnir geta allir vel við unað
Framsóknarflokkurinn bætir mikið við sig – eða allt að fimm þingmönnum eftir því sem jöfnunarþingsætin sveiflast. Óhætt er að kalla flokkinn sigurvegara kosninganna, miðað við fyrstu tölur, en hann hefur fengið yfir 16 prósent þeirra atkvæða sem talin hafa verið á landsvísu.
Sjálfstæðisflokkurinn er stærsti flokkurinn með rúm 24 prósent þeirra atkvæða sem talin hafa verið. Það er nokkuð hærra en skoðanakannanir hafa sýnt að undanförnu. Flokkurinn stendur í stað hvað þingmannafjölda varðar samkvæmt þeim tölum sem hafa komið fram. Flokkurinn er lítillega undir kjörfylgi sínu árið 2017.
Vinstri græn virðast vera að tapa um tveimur prósentustigum og tveimur þingmönnum frá síðustu kosningum – sem þó myndi ekki minnka þingflokk flokksins neitt, þar sem tveir þingmenn VG gengu til liðs við aðra flokka á kjörtímabilinu. Flokkur Katrínar Jakobsdóttur virðist þó vera að fá betri kosningu en skoðanakannanir gerðu ráð fyrir, eða yfir 14 prósent.
Flokkur fólksins sterkur en miðjuflokkarnir lægri en kannanir sýndu
Sigurvegara kosninganna mætti sömuleiðis kalla Flokk fólksins, sem virðist ætla að bæta við sig tveimur þingmönnum frá kosningunum árið 2017, fá sex menn kjörna og slaga nærri 9 prósenta fylgi.
Ef að þetta verða niðurstöður kosninganna yrði það verulega á skjön við það sem skoðanakannanir hafa sýnt að undanförnu, en Samfylkingin, Píratar og Viðreisn virðast vera að fá allnokkuð lakari kosningu en jafnvel mjög nýlegar kannanir höfðu sýnt.