1,8 milljörðum króna verður varið í brýnar framkvæmdir á vegakerfi landsins. Þetta var ákveðið á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun. Tilgangur framkvæmdanna er að bæta umferðaröryggi, bregðast við slæmu ástandi vega og koma til móts við þarfir landsmanna og ferðamanna vegna stóraukinnar umferðar, segir í tilkynningu á vef innanríkisráðuneytisins.
Þetta kemur til viðbótar þeim 850 milljónum króna sem tilkynnt var fyrr í dag að yrði veitt í úrbætur á ferðamannastöðum.
1,3 milljarðar munu fara í fjögur verkefni; Dettifossveg, Kjósarskarðsveg, Uxahryggjaveg og Kaldadalsveg. Þessar umbætur á vegunum fjórum eru ætlaðar til að auka öryggi og dreifa álagi um vegakerfið. „Verkefnin eru mikilvægar vegabætur sem lengi hefur staðið til að hrinda í framkvæmd en ítrekað verið frestað.“ Þessi fjármögnun er háð samþykki Alþingis, en óskað verður eftir því að fjárheimildir verði veittar á fjáraukalögum.
Framkvæmdir við veg milli Dettifoss og Ásbyrgis hafa verið ráðgerðar í nokkur ár en ávallt verið frestað. Innanríkisráðuneytið segir að með úrbótum verði ferðaþjónustusvæði stækkað og ferðatímabilið lengt. Það muni þjóna bæði ferðamönnum og landsmönnum betur en nú er. Þá verði hægt að flýta endurbyggingu Kjósarskarðsvegs um eitt ár með fjárveitingunni, en vegurinn tengir Þingvelli við Hvalfjörð og Vesturland.
500 milljónir munu svo fara í viðhald á umferðarmestu götunum á höfuðborgarsvæðinu og Hringveginum í kringum landið. „Tjóna- og slysahætta vegna þessa er mikil og því er nauðsynlegt að ráðast nú þegar í framkvæmdir til að auka umferðaröryggi,“ segir innanríkisráðuneytið.