Ríkisstjórn Íslands hefur afgreitt þingsályktunartillögu um að byggð verði við Alþingishúsið viðbygging eftir hönnun Guðjóns Samúelssonar. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra lagði tillöguna fram og er tilefni hennar hvernig eigi að minnast aldarafmælis fullveldis Íslands eftir þrjú ár, en Ísland fékk fullveldi 1. desember 1918. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu. Ekkert kemur fram um hver áætlaður kostnaður við framkvæmdina sé.
Í þingsályktunartillögunni segir að viðeigandi sé að á 100 ára afmælinu verði lokið við áform um uppbyggingu á Alþingisreitnum sem ráðist hefði verið í fullveldisárið 1918 ef fjárhagur og aðstæður leyfðu. "Það fer þar
af leiðandi vel á því að nú, þegar Íslendingar hafa í heila öld notið þeirra framfara sem fylgdu í kjölfar fullveldis verði lokið við byggingaráformin," segir í ályktuninni. Samkeppni um hönnun hússins og tengibygginga verður að öllum líkindum haldin. Í Fréttablaðinu segir að með því vinni kynslóðir fullveldisstofnunarinnar með kynslóðum samtímans við uppbyggingu til framtíðar. "Um leið og horft er til framtíðar er fortíðinni sýnd virðing og draumar fyrri kynslóðar uppfylltir í þágu framtíðarkynslóða."
Í þingsályktun Sigmundar er einnig kveðið á um að lokið verði við byggingu yfir Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og lagt til að reist verði ný Valhöll á Þingvöllum í stað þeirrar sem brann árið 2009.