Hugbúnaðar- og fjarskiptarisinn Apple hyggst reisa gagnaver við bæinn Viborg á Jótlandi í Danmörku fyrir rúmlega 130 milljarða króna, en frá þessi greindi Apple í fréttatilkynningu til Kauphallar í nótt. Dönsk yfirvöld hafa fagnað ákvörðuninni sérstaklega, en þetta er stærsta erlenda fjárfestingin í Danmörku það sem af er árinu. Apple tilkynnti á sama tíma um framkvæmdir við gagnaver skammt frá bænum Athenry í Írlandi, en þær nema um 125 milljörðum króna. Í heild er fjárfesting Apple í þessum tveimur gagnaverum um 1,7 milljarða evra, af því er segir í fréttatilkynningu Apple.
Tim Cook, forstjóri Apple, segir í fréttatilkynningu að forsvarsmenn Apple séu stoltir af fjárfestingum í Evrópu og að orkan sem muni knýja gagnaverin áfram sé 100 prósent vistvæn, komi frá endurnýjanlegum orkugjöfum. Í tilkynningu Apple kemur enn fremur fram að 530 þúsund störf í Evrópu megi rekja beint til framleiðslu á Öpp-um sem aðgengileg eru í App Store, smáforritavefverslun Apple. Hjá Apple starfa 18.300 starfsmenn í nítján Evrópulöndum, þar af hafa tvö þúsund starfsmenn verið ráðnir á undanförnum tólf mánuðum, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Apple.
Áætlað er að gagnaverin tvö verði tilbúin árið 2017 og verði 166 þúsund fermetrar að stærð. Gagnaverin verða notuð til þess að hýsa gagnageymslur og símamiðstöðvar. Gert er ráð fyrir að uppbygging gagnavera verði mikil og hröð næstu misseri, ekki síst vegna mikils vaxtar samfélagsmiðla sem fólk notar til þess að deila upplýsingum, meðal annars myndum og myndböndum, og til þess að þetta sé hægt þarf hýsingin að vera áreiðanleg.
Apple hefur átt ótrúlegu gengi að fagna á undanförnum misserum og er með fulla vasa fjár til fjárfestinga. Laust fé í sjóðum fyrirtækisins nemur 178 milljörðum Bandaríkjadala, eða sem nemur meira en 23 þúsund milljörðum króna.