Róbert Marshall, upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar, er kominn í launalaust leyfi. Frá þessu greinir Róbert á Facebook síðu sinni. Ástæða leyfisins er sú að Róbert er frambjóðandi í forvali Vinstrihreyfingarinnar – grænu framboði í Suðurkjördæmi.
Róbert var ráðinn upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar í mars í fyrra en áður hefur hann gegnt þingmennsku fyrir Samfylkinguna og Bjarta Framtíð. Róbert hafði áður verið aðstoðarmaður samgönguráðherra og starfaði við fjölmiðla um árabil og var um tíma formaður Blaðamannafélags Íslands.
Róbert hefur einnig starfað við fjallaleiðsögn, þjálfun og útivist á undanförnum árum. Í tilkynningu sinni segist Róbert meðal annars ætla að beita sér fyrir umhverfismálum og náttúruvernd.
„Verkefnið framundan er að tala fyrir náttúruvernd, umhverfismálum, grænni uppbyggingu atvinnulífs og félagslegu réttlæti í krefjandi framtíð og stækka kjósendahóp þessara sjónarmiða á svæði sem ég þekki vel og á djúpar rætur í. Ég hlakka til fararinnar enda erindið mikilvægt,“ segir Róbert meðal annars í tilkynningunni. Hann vísar í kjölfarið í feril sinn sem þingmanns og hendir gaman að, segir endurnýjun alltaf hafa verið mikilvæga í stjórnmálum en að endurnýting sé lykilhugtak grænnar framtíðar.