Rögnunefndin svokallaða skilar í dag skýrslu um flugvallarkosti fyrir innanlandsflug á höfuðborgarsvæðinu. Skýrslan verður afhent innanríkisráðherra, borgarstjóra og forstjóra Icelandair. Ragna Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar, hefur farið fyrir stýrihópnum.
Uppfært: Skýrslan verður kynnt á blaðamannafundi klukkan 14:30 í dag. Á sama tíma verður hún aðgengileg á vefnum.
Nefndin hafði það að markmiði að meta og kanna nokkra staði fyrir nýjan innanlandsvöll á höfuðborgarsvæðinu. Sérstaklega var horft til fimm staða, Löngusker, Bessastaðanes, Hvassahraun, Hólmsheiði og nýjar útfærslur í Vatnsmýri. Í niðurstöðukafla skýrslunnar verður að finna þær tillögur sem nefndin leggur til um framhald málsins.
Stýrihópurinn var settur á laggirnar með samkomulagi þann 25. október 2013. Starf hans hefur kostað um 35 milljónir króna og deilist sá kostnaður milli ríkisins, Reykjavíkurborgar og Icelandair Group.