Breski bankinn Royal Bank of Scotland tapaði 3,5 milljörðum punda í fyrra, eða sem nemur 714 milljörðum króna. Þrátt fyrir það greiðir bankinn, sem breska ríkið á 79 prósent hlut í, 421 milljón punda í bónusgreiðslur til starfsmanna, eða sem nemur um 85 milljörðum króna.
Frá þessu greinir breska ríkisútvarpið BBC. Forstjóri bankans, Ross McEwan, segir í viðtali við BBC að bónusgreiðslurnar séu sérstakalega viðkvæmt efni, en sagði þær vera hluta af rekstrarumhverfinu og að þær væru „nauðsynlegar“ til þess að laða fólk til bankans sem gæti framkvæmt tæknilega erfiða hluti.
Royal Bank of Scotland var að stærstum hluta þjóðnýttur, haustið 2008, eftir að bankinn fór næstum í þrot í hremmingunum á fjármálamörkuðum. Innviðir bankans reyndust miklu mun verri en margir höfðu reiknað með, og því hefur starfsemi bankans mótast að miklu leyti af því alveg frá hausti 2008. Tapið vegna rekstursins í fyrra má rekja til lélegrar afkomu Citizens, sem er dótturfélag bankans í Bandaríkjunum.