Virði rússnesku rúblunnar er nú minna en virði íslensku krónunnar, í fyrsta skipti í að minnsta kosti 16 ár. Þetta kemur fram þegar gengi rúblunnar við Bandaríkjadal er borið saman við gengi krónunnar við Bandaríkjadal.
Líkt og Kjarninn hefur greint frá í dag hafa kortarisarnir Mastercard og Visa, auk greiðslufyrirtækisins Paypal, lokað á allt peningaflæði til og frá Rússlands í gegnum sín kerfi. Einnig hefur fjöldi rússneskra banka verið útilokaður frá alþjóðlega greiðslumiðlunarkerfinu SWIFT.
Rússneska ríkisstjórnin birti svo í morgun lista yfir þjóðir sem hún telur vera óvinveittar sér. Ísland var á meðal þessara þjóða, en auk þeirra voru Evrópusambandsríkin, Japan, Suður-Kórea og önnur Vesturlönd. Samkvæmt stjórnvöldum í Kreml mega rússneskir skuldarar greiða upp erlendar skuldir sínar í sínum gjaldmiðli, rúblum, ef kröfuhafarnir eru frá óvinveittum ríkjum.
Samkvæmt gengisskráningu Seðlabankans kostaði ein rúbla tæpar tvær krónur í byrjun ársins. Þá hafði virði hennar gagnvart íslensku krónunni lækkað nokkuð síðasta áratuginn, en það stóð í fjórum íslenskum krónum árið 2011, líkt og myndin hér að ofan sýnir.
Frá því að innrás Rússa í Úkraínu hófst hefur virði rúblunnar svo hríðfallið, en það lækkaði um fjórðung gagnvart krónunni á milli 18. og 28. febrúar. Á föstudaginn í síðustu viku veiktist gengi hennar svo um níu prósent. Mesta veiking gjaldmiðilsins átti sér þó stað í dag, en þegar þetta er skrifað hefur virði hans veikst um 15 prósent gagnvart krónunni í dag, en veikingin gagnvart Bandaríkjadal nemur fimmtungi.
Samkvæmt Keldunni nemur söluverð Bandaríkjadalsins 133,7 krónum, en 139,38 rúblum, samkvæmt Yahoo Finance. Með tilliti til þessara talna kostar rúblan því 0,97 krónur.