Innflutningsbann Rússlands á matvæli frá Íslandi hefur lítil áhrif haft á gengi hlutabréfa í HB Granda í Kauphöllinni. Félagið lækkaði um 2,7 prósent í viðskiptum á fimmtudag í síðustu viku, sama dag og Rússar tilkynntu um þá ákvörðun að bæta Íslandi og fleiri löndum við innflutningsbannlista sinn. Þann sama dag sendi HB Grandi frá sér tilkynningu til Kauphallarinnar og greindi frá því að sautján prósent af tekjum félagsins 2014 hafi komið til vegna viðskipta við Rússland.
Á föstudag, daginn eftir að greint var frá innflutningsbanninu, hækkaði gengi HB Granda um ríflega þrjú prósent í samtals nærri 400 milljóna króna viðskiptum. Við lok viðskiptadags stóð gengi bréfanna í 39,9 krónum á hlut. Við lokun markaða í dag, miðvikudag, er gengi bréfanna um 39,35 krónur á hlut en engin viðskipti voru gerð með bréf í félaginu í dag.
Markaðsvirði HB Granda, eins stærsta sjávarútvegsfyrirtækis á Íslandi og það eina sem skráð er á markaði, hefur þannig lítið breyst, þrátt fyrir innflutningsbann Rússa og mögulegra afleiðinga þess á tekjur félagsins. HB Grandi áætlar að tekjur muni lækka um tíu til fimmtán milljónir evra á ársgrundvelli vegna bannsins, en tekið er fram í tilkynningunni að erfitt sé að meta nákvæmlega hver fjárhagsleg áhrif verða.
Sala HB Granda á fyrsta ársfjórðungi 2015 nam um 53,3 milljónum evra og jókst frá því að vera tæplega 42 milljónir evra á sama ársfjórðungi 2014. Vergur hagnaður ríflega tvöfaldaðist milli þessara tímabila, hann var 24,8 milljónir evra á fyrsta ársfjórðungi 2015 en 11 milljónir evra á fyrsta ársfjórðungi 2014. Eignir HB Granda í lok mars 2015 námu um 393 milljónum evra, jafnvirði um 57 milljarða króna. Eigið fé félagsins var 233 milljónir evra, jafnvirði um 34 milljarða króna. Óhætt er að segja að rekstur og efnahagur félagsins standi vel.
Breyti ekki útflutningshorfum
Ljóst er að innflutningsbann Rússlands hefur veruleg áhrif á útflutning sjávarafurða, helst uppsjávarfisks, og hafa Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi sagt að við venjulegar aðstæður yrði útflutningsverðmæti sjávarafurða til Rússlands í ár um 37 milljarðar króna. Samkvæmt tölum hagstofunnar nam útflutningur til Rússlands um 29 milljörðum króna á síðasta ári, þar af var um 24 milljarðar sjávarafurðir, og hefur útflutningsverðmætið vaxið ört á síðustu árum.
Fiskútflytjendur leita nú nýrra markaða fyrir afurðir sínar, helst makríl, og búist er við að lægra verð fáist fyrir afurðirnar en hefði fengist í Rússlandi.
Seðlabankinn birti í dag uppfærða efnahagsspá fyrir árin 2015 til 2017. Í nýjasta hefti Peningamála, ársfjórðungslegu riti Seðlabankans, er gert ráð fyrir að vöruútflutningur frá Íslandi haldist nær óbreyttur í ár frá því sem bankinn spáði í maí síðastliðnum, þrátt fyrir innflutningsbann Rússa. Í spá bankans er gert ráð fyrir að frystur uppsjávarfiskur sem hefði farið til Rússlands fari í bræðslu. Við það lækki útflutningsverðmæti hans um átta til tíu milljarða króna. Á móti komi að framleiðslu- og útgerðarkostnaður mjöls og lýsis sé lægri en vegna frystingar.
„Líklegt er að áhrif viðskiptabannsins verði minni en þau hefðu verið ef viðskiptabannið hefði verið sett á í fyrra vegna erfiðara efnahagsástands í Rússlandi í ár og hefur útflutningur til Rússlands það sem af er ári verið töluvert minni en á síðasta ári. Einnig er óvíst hvernig til tekst við að afla nýrra markaða fyrir frystar afurðir uppsjávarfiska,“ segir í Peningamálum sem kom út í dag.