Skrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar í Pétursborg barst á mánudaginn bréf frá saksóknara í borginni þar sem hann krefst þess að skrifstofan verði tafarlaust skráð sem útlenskur erindreki í Rússlandi. Þetta kemur fram í frétt á heimasíðu Norrænu ráðherranefndarinnar. Samkvæmt skriflegu svari frá starfsmanni ráðherranefndarinnar við fyrirspurn Kjarnans koma fram ásakanir í bréfi saksóknarans á hendur nefndinni um að hún stundi pólitíska starfsemi í Rússlandi.
Samkvæmt rússneskum lögum ber félagasamtökum sem stunda pólitíska starfsemi, og eru fjármögnuð erlendir frá, að skrá sig sem útlenskan erindrekar. Skrifstofur ráðherranefndarinnar í Rússlandi hafa hins vegar haft stöðu frjálsra félagasamtaka frá því að hún var opnuð árið 1995.
Skoða að áfrýja ákvörðun rússneskra yfirvalda
Dagfinn Høybråten, framkvæmdastjóri ráðherranefndarinnar, segir ákvörðun Rússa hafa komið á óvart, að því er fram kemur í áðurnefndri frétt á heimasíðu nefndarinnar. „Undanfarna tvo áratugi hefur Norræna ráðherranefndin átt mikið og traust samstarf við Norðvestur-Rússland. Því kemur það flatt upp á okkur að eiga nú að skrá okkur sem útlenskan erindreka. Við skoðun nú þann möguleika að áfrýja ákvörðuninni.“
Høybråten ítrekar að skrifstofa Norrænu ráðherranefndarinnar í Pétursborg stundi enga pólitíska starfsemi í Rússlandi. Hann segir að skrifstofan hafi starfað á grundvelli samnings við rússnesk yfirvöld sem gerður var árið 1995 þegar skrifstofa nefndarinnar opnaði í Pétursborg.