Um fimm prósent útflutningsverðmæta Íslands á síðasta ári komu til vegna útflutnings til Rússlands. Landið hefur lengi verið eitt af helstu viðskiptalöndum Íslands. Á árinu 2014 voru aðeins fimm lönd sem keyptu meira af útflutningsafurðum Íslands, en alls nam verðmæti útflutnings til Rússlands um 29 milljörðum króna á síðasta ári af samtals um 590 milljarða króna útflutningsverðmætum.
Töluverður samdráttur hefur orðið á útflutningi til Rússlands í ár. Fluttar hafa verið út vörur til landsins fyrir um sjö milljarða króna, samkvæmt tölum Hagstofunnar um vöruskipti á fyrstu sex mánuðum ársins 2015. Á sama tíma í fyrra höfðu verið fluttar út afurðir fyrir 11,4 milljarða króna til Rússlands. Á fyrstu sex mánuðum ársins 2015 nemur útflutningur til Rússlands rúmlega tveimur prósentum af heildarútflutningi.
Stjórnvöld í Rússlandi hyggjast víkka innflutningsbann á matvælum gagnvart Evrópusambandslöndum og láta það einnig ná til sjö ríkja utan ESB. Löndin sjö stutt viðskiptaþvinganir sambandsins, Bandaríkjanna og Kanada gegn Rússlandi vegna hernaðaraðgerða Rússa í Úkraínu. Ísland er í hópi ríkjanna ásamt Albaníu, Svartfjallalandi, Noregi, Liechtenstein, Úkraínu og Georgíu. Fréttamiðillinn Russia Today fjallar um málið um dag. Það hefur New York Times einnig gert.
Fjallað var um fyrirhugaðar aðgerðir Rússa í Morgunblaðinu í dag og haft eftir Gunnari Braga Sveinssyni að vissulega valdi þetta áhyggjum. Verið sé að reyna að frekari upplýsinga um hversu mikil alvara sé í málinu hjá Rússum. Samkvæmt frétt Russian Today í dag þá stendur undirbúningur yfir að gerð frumvarps um víkkað viðskiptabann í landbúnaðarráðuneyti Rússa.
Miklir hagsmunir eru í húfi fyrir íslensk sjávarútvegsfyrirtæki en útflutningur til Rússlands er helst á sjávarfangi, einkum frosnum loðnuafurðum, makríl og síld. Grafið hér að neðan sýnir verðmæti útflutnings til Rússlands á árunum 2010 til 2014. Nærri helmingur af makríl var seldur til Rússlands árið 2013.
Aðeins fimm ríki keyptu meira af útflutningsafurðum Íslands en Rússland á árinu 2014. Löndin fimm eru Holland, Bretland, Spánn, Þýskaland og Frakkland.