Grínistinn og aðgerðasinninn Russell Brand hefur lýst yfir stuðningi við Verkamannaflokkinn fyrir kosningarnar í Bretlandi á fimmtudag. Brand segir í nýju myndbandi að Ed Miliband, leiðtogi Verkamannaflokksins, muni hlusta á almenning. Brand tók viðtal við Miliband fyrir nokkrum dögum síðan. Í nýja myndbandinu segir hann að Englendingar þurfi að kjósa til þess að koma af stað byltingu.
„Það sem ég heyrði Ed Miliband segja er að ef við tölum, þá mun hann hlusta. Á þessum grundvelli held ég að við höfum ekki um neitt annað að velja en grípa til aðgerða til þess að binda endi á þá hættu sem stafar af Íhaldsflokknum. David Cameron finnst ég kannski vera djók en mér finnst ekkert fyndið við það sem Íhaldsflokkurinn hefur verið að gera þessu landi, og við verðum að stöðva hann.“
Miliband heimsótti Brand í síðustu viku og það þótti áhættusamt. Þeir ræddu saman um ýmislegt, og í kjölfar viðtalsins sagði David Cameron að viðtalið og mennirnir tveir væru „djók“.
Þetta er talsverð breyting á afstöðu grínistans, en hann hefur löngum hvatt fólk til þess að kjósa ekki, vegna þess að allir flokkar séu eins og það virki ekkert að kjósa. Þetta kom meðal annars fram í viðtali sem Jeremy Paxman tók við hann fyrir tveimur árum síðan.
„Ég veit að ég hef verið „herra ekki kjósa“ en það sem ég meina er að stjórnmál eru ekki eitthvað sem við getum aðeins haft áhuga á einu sinni á fimm ára fresti, ekki bara í kosningum. Lýðræði er nokkuð sem við eigum alltaf að hafa áhuga á og taka þátt í.“