Vladimir Putin hefur undirritað þrjár lagabreytingar sem gera það meðal annars að verkum að laun ríkisstarfsmanna verða lækkuð frá og með 1. maí næstkomandi. Putin og Dmitri Medvedev forsætisráðherra ætla að leiða með fordæmi og taka á sig tíu prósent launalækkanir.
Til viðbótar ætla rússnesk stjórnvöld að fækka ríkisstarfsmönnum um fimm til 20 prósent. Þetta kemur fram í frétt á Business Insider.
Seilast í varasjóði
Aðgerðirnar eru hluti af víðfermum neyðaraðgerðum sem rússnesk stjórnvöld hafa gripið til vegna þess mikla tekjusamdráttar sem lækkun á heimsmarkaðsverði á olíu hefur valdið landinu. Hver tunna af olíu er nú að seljast á um 60 dali en fjárlög rússneska ríkisins miðuðu við að tunnan væri að seljast á um 100 dali. Þar sem olíuútflutningur skiptir ríkið öllu máli er ljóst að risastórt gat er að myndast í fjárlögum ársins 2015.
Þessar fréttir berast viku eftir að Anton Siluanov, fjármálaráðherra Rússlands, bað rússneska þingið um að fá aðgang að um 34 milljörðum punda, um 7.000 milljörðum króna, sem geymdir eru í varasjóði sem Rússland á til að fármagna áætlun sína sem á að vinna gegn kreppuáhrifum. Upphæðin nemur um helmingi allra eigna sjóðsins.
Himinhá verðbóla og samdráttur
Verðbólga mældist 16,7 prósent í Rússlandi í síðasta mánuði og spár Alþjóðagjaldeyrissjóðsins gera ráð fyrir að efnahagur landsins dragist saman um þrjú prósent á þessu ári og eitt prósent til viðbótar á því næsta.
Þessar spár gera hins vegar ráð fyrir því að ástandið í Úkraínu muni lagast á næstu misserum. Það er alls ójóst að það ástand muni lagast og því enn töluverðar líkur á að samdrátturinn í Rússlandi verði meiri.