Yfirmenn í rússnesku tollgæslunni funduðu með kollegum sínum hjá Evrópusambandinu í Brussel í gær. Fundurinn vakti töluverða athygli, enda samskipti Rússlands og Evrópusambandsins ekki upp á sitt besta sökum viðskiptaþvinganna sem sambandið hefur beitt Rússa vegna ástandsins í Úkraínu frá því snemma árs 2014. Í frétt Reuters um fundinn kemur hins vegar fram að ástæða hans hafi verið sú að rússneska tollgæslan hafi óskað eftir samvinnu Evrópusambandsins til að takast á við falsaðar merkingar á matvöru sem flutt er inn til Rússlands og er sögð vera frá löndum utan Evrópusambandsins. Þar á meðal er innfluttur lax sem hafi verið merktur sem íslensk vara.
Í frétt Reuters um málið er haft eftir Yevgeny Nepoklonov, yfirmanni hjá rússnesku matvælastofnuninni Rossel Rosselkhoznadzor, að rússnesk tollayfirvöld hafi haldlagt stórar vörusendingar af svínakjöti sem fylgigögn sögðu að væru frá Svartfjallalandi, sem er ekki í Evrópusambandinu. Þá hafa þau einnig haldlagt umtalsvert magn af laxi sem fylgigögn sögðu að væri frá Íslandi. Nepolklonov sagði að vörusendingarnar væri skipulagðar af glæpagengjum og að Rússar vildu vinna með Evrópusambandinu til að koma í veg fyrir þennan ólöglega innfluttning.
Innfluttningsbann á Ísland
Dmitry Medveded, forsætisráðherra Rússa, tilkynnti í ágúst að Ísland væri komið á lista yfir þau lönd sem nú er óheimilt að flytja inn matvæli frá. Auk Íslands bættust Albanía, Svartfjallaland, Liechtenstein og Úkraína á listann. Í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu í kjölfar ákvörðunarinnar sagði: "Ljóst er að bannið felur í sér að íslenskum fyrirtækjum verður ekki lengur unnt að markaðssetja sjávarafurðir í Rússlandi auk þess sem bannið tekur til landbúnaðarvara að frátöldu lambakjöti, ærkjöti, hrossakjöti og niðursoðnu fiskmeti í dósum". Samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu má ekki flytja inn íslenskan lax til Rússlands samkvæmt innflutningsbanninu. Því er óljóst hvaða tilgangi það eigi að þjóna að segja laxinn með röngu merkingunum vera frá Íslandi.
Innflutningsbann Rússa er viðbragð þeirra við viðskiptaþvingunum Evrópusambandsins, Bandaríkjanna og Kanada sem þeir búa við vegna innlimunar þeirra á Krímskaga. Ísland er á meðal þeirra landa sem stutt hafa viðskiptaþvinganirnar. Rússland er stórt viðskiptaland Íslands og stærsti kaupandi uppsjávarafla, einkum makríls.