Ríkisstjórn Rússlands hefur skilgreint Ísland sem „óvinveitta þjóð,“ en með þeirri skilgreiningu verður Íslendingum meinað að eiga í nýjum fjármálagerningum og fasteignaviðskiptum við rússneska aðila án samþykkis. Sömuleiðis leyfir rússneska ríkisstjórnin þarlendum lánþegum í erlendum gjaldeyri að borga upp lánin sín í rúblum, ef kröfuhafarnir eru frá óvinveittum löndum.
Rússneska ríkisfréttastofan TASS greindi frá tilkynningu stjórnvalda fyrr í dag, en þar gaf rússneska ríkisstjórnin út lista yfir þjóðum sem hún taldi vera óvinveittar sér. Auk Íslands voru þar öll aðildarríki Evrópusambandsins og flestar aðrar Evrópuþjóðir, Japan, Suður-Kórea, Ástralía, Míkrónesía, Nýja-Sjáland, Singapúr og Tævan.
Samkvæmt TASS munu rússneskir skuldunautar ekki þurfa að greiða upp erlend lán sín, að andvirði 10 milljónum rúblum eða meira á mánuði, í erlendum gjaldeyri ef kröfuhafarnir eru frá óvinveittum ríkjum. Þessi upphæð jafngildir um 9,8 milljónum íslenskra króna.
Fréttastofa Reuters hefur einnig greint frá því að aðilar frá ríkjunum sem Rússland telur vera óvinveitt sér munu nú þurfa sérstakt leyfi til að taka lán eða eiga í fasteignaviðskiptum í Rússlandi.