Tvær langdrægar rússneskar sprengjuflugvélar af gerðinni Tupolev Tu-95, en þessi tegund er oftast nefnd „Björninn“, flugu inn í loftrýmiseftirlitssvæði NATO í nágrenni Íslands upp úr hádegi í gær. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landshelgisgæslunni. Rússneskar flugvélar hafa ekki flogið jafn nálægt Íslandi síðan að Bandaríkjaher fór héðan árið 2006. Sprengjuflugvélarnar flugu tvívegis framhjá landinu og voru í 26 sjómílna fjarlægð frá Stokknesi þegar næst var.
BBC greindi frá því í morgun að tveir „birnir“ hefðu sést undan ströndum Cornwall í gær, en breska varnarmálaráðuneytið greindi frá þessu. Sama dag varaði Michael Fallon, varnarmálaráðherra landsins, við hættunni af Vladimír Pútín Rússlandsforseta. Hann sagði Eystrasaltsríkin í hættu og að Atlantshafsbandalagið þyrfti að vera undir það búið að bregðast við.
Í tilkynningunni frá Landhelgisgæslunni kemur fram að fylgst hafi verið vel með vélunum "í loftvarnaeftirlitskerfi NATO hér á landi sem vinnur úr gögnum frá ratsjárkerfi sem Landhelgisgæslan rekur og staðsett er í hverjum landsfjórðungi. Vélarnar komu inn í loftrýmiseftirlitssvæðið austur af Íslandi og héldu í suðurátt að Bretlandi og Írlandi. Þar voru þær auðkenndar af breskum orrustuþotum en stjórnstöð Landhelgisgæslunnar á Keflavíkurflugvelli (NATO Control and Reporting Center) hafði eftirlit með fluginu þann tíma sem vélarnar voru hér við land og tryggði flugöryggi í samvinnu við aðgerðastjórnstöð NATO (Combined Air Operation Center) í Uedem í Þýskalandi og flugleiðsögu Isavia.
„Birnirnir“ tveir sneru við síðdegis norður af Bretlandi og flugu sem leið lá aftur að Íslandi, meðfram suðurströnd Íslands og austur með landinu þar sem þær tóku beygju upp með Austurlandi og flugu loks aftur í norður í átt að Rússlandi."
Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, segir gæsluna fylgjast vel með flugi Rússa inn á loftvarnasvæði Íslands og að rússneskar sprengjuflugvélar hafa aldrei flogið jafn nærri landi og nú.
Eftirlit Landhelgisgæslunnar með flugi rússnesku sprengjuflugvélanna er hluti af framkvæmd loftrýmiseftirlits og loftrýmisgæslu Atlantshafsbandalagsins sem Ísland er aðili að og á sér stað allt árið um kring. Starfsmenn Landhelgisgæslunnar starfa í stjórnstöðinni í Keflavík og sinna eftirlitinu fyrir hönd Íslands.