Kjarninn er sá fjölmiðill í einkaeigu sem nýtur mest trausts á meðal háskólamanna. Einungis Ríkisútvarpið (RÚV) nýtur meira trausts innan þess hóps en Kjarninn. Traust til annarra miðla reyndist langtum minna en sjá má í sams konar könnunum sem MMR hefur gert meðal almennings. Þetta er meðal þess sem kemur fram í niðustöðum nýrrar könnunar Björns Gíslasonar um viðhorf háskólafólks til þátttöku í opinberri umræðu á vettvangi fjölmiðla. Ítarlegra er greint frá niðurstöðunum í nýjustu útgáfu Kjarnans. Könnunin var send á um 750 manns sem starfa innan háskólanna á Íslandi og var svarhlutfall um 40 prósent.
Af þeim sem svöruðu sögðust 91,96 prósent bera mikið traust til hljóðvarps Ríkisútvarpsins og 78,62 prósent treystu sjónvarpshluta Ríkisútvarpsins vel. Af einkamiðlunum ríkir mest traust á meðal háskólamanna til Kjarnans, en 34,4 prósent treysta honum mikið. Það er umtalsvert hærra hlutfall en sem treystir rótgrónum dagblöðum á borð við Morgunblaðið, Fréttablaðið og Viðskiptablaðið. Fáir háskólamenn treysta DV, miðlum Vefpressunar, ÍNN óg útvarpi Sögu.
Í könnuninni var einnig spurt um vantraust til fjölmiðla. Sá miðill sem minnst vantraust er gagnvart er hljóðvarp Ríkisútvarpsins, en einungis 1,05 prósent vantreysta því. Í öðru sæti yfir minnst vantraust er Kjarninn, einungis 3,9 prósent háskólamanna vantreysta honum. Það er miklu lægra hlutfall en hjá dag- og vikublöðum landsins. Mest vantraust var gagnvart Útvarpi Sögu og DV. Yfir 60 prósent svarenda vantreysti þessum miðlum.
Ritstjórn Kjarnans fagnar því trausti sem henni er sýnt og niðurstöður könnunarinnar hvetja hana áfram til góðra verka.