Alls námu tekjur allra fjölmiðla á Íslandi 27 milljörðum króna í fyrra. Á föstu verðlagi er það sama upphæð og þeir þénuðu árið 2015, en 13 prósent minni tekjur en miðlarnir höfðu samanlagt árið 2005. Inni í þessum tölum eru þær tekjur sem Ríkisútvarpið tekur til sín, en það var með 25 prósent hlutdeild í fjölmiðlatekjum á síðasta ári. Þar af tekur RÚV til sín helming allra auglýsingatekna í sjónvarpi og 39 prósent allra auglýsingatekna í hljóðvarpi. Hlutdeild þess af auglýsingakökunni fyrir sjónvarp og útvarp óx milli ára.
Þetta kemur fram í tölum sem Hagstofa Íslands birti í síðustu viku um tekjur innlendra fjölmiðla.
Notendatekjur aukist en auglýsingatekjur dregist saman
Stærstur hluti tekna fjölmiðla, alls 16,1 milljarður króna í fyrra, kemur frá notendum eða 60 prósent. Þar munar mestu um þau notendagjöld sem renna til RÚV, en ríkismiðillinn fékk tæplega 4,7 milljarða króna úr ríkissjóði á árinu 2021. Á næsta ári, 2023, gera fjárlög ráð fyrir að RÚV fái 5,7 milljarða króna úr sameiginlegum sjóðum. Ofan á það framlag sækir RÚV um tvo milljarða króna á ári í auglýsingatekjur. Hlutur RÚV í öllum fjölmiðlatekjum hefur farið vaxandi á undanförnum. Hann var 22 prósent árið 2015 en 25 prósent í fyrra.
Staðan raunar breyst ansi hratt á síðustu sex árum. Árið 2015 voru tekjur fjölmiðla vegna greiðslna frá notendum ellefu prósent lægri á föstu verðlagi en þær voru á síðasta ári. Auglýsingatekjurnar þá voru hins vegar 16 prósent hærra þá en þeir eru nú. Ef farið er lengra aftur í tímann, til 2005, hafa auglýsingatekjur innlendra fjölmiðla dregist saman um 54 prósent.
Fimm stærstu fjölmiðlar landsins taka til sín 87 prósent af tekjum þegar RÚV er talið með. Því skiptast 13 prósent tekna á aðra fjölmiðla í landinu en á þessu ári fengu alls 25 einkareknir fjölmiðlar rekstrarstyrk úr ríkissjóði.
Facebook og Google ryksuga upp auglýsingatekjur
Hagstofan greindi frá því snemma í desember að erlendir miðlar hafi tekið til sín 43,2 prósent af öllum auglýsingasölutekjum á Íslandi á síðasta ári. Það þýðir að 9,5 af 22 milljörðum króna sem varið var til auglýsingakaupa á árinu 2021 fór til erlendra aðila.
Þessir erlendu aðilar eru aðallega Google og Facebook, en hlutur þessara tveggja alþjóðlegu stórfyrirtækja í greiðslukortaviðskiptum vegna þjónustuinnflutnings vegna auglýsinga var 95 prósent á síðasta ári.
Hlutur þessara aðila í greiðslum vegna birtinga auglýsinga hefur farið hratt vaxandi síðustu ár og tvöfaldast á einungis átta árum, en á föstu verðlagi fóru fimm milljarðar króna til erlendra aðila árið 2013 og, líkt og áður sagði, 9,5 milljarðar króna í fyrra. Vöxturinn á milli áranna 2020 og 2021 nam 34 prósentum.
100 milljónirnar fara í styrkjakerfið
Undanfarin ár hefur verið greiddur rekstrarstyrkur til einkarekinna fjölmiðla sem uppfylla ákveðin skilyrði. Í honum felst að hlutfall af ritstjórnarkostnaði þeirra er endurgreiddur. Styrkjakerfið rennur út um komandi áramót en fyrir þingi liggur frumvarp um að lengja það til tveggja ára. Búist er við að það frumvarp verði afgreitt fljótlega eftir jól.
Fjölmiðlafyrirtækið N4, sem rekur ekki fréttastofu en framleiðir ýmis konar efni, óskaði í desember eftir því að fá 100 milljón króna styrk úr ríkissjóði. Fjárlaganefnd samþykkti styrkveitinguna en nefndarmenn sögðu síðar að hún ætti að skiptast á fleiri sem framleiða sjónvarpsefni á landsbyggðinni. N4 er eina sjónvarpsstöðin á landsbyggðinni.
Eftir að málið rataði í fjölmiðla var ákveðið að breyta úthluta fjármununum með öðrum hætti. Í nefndaráliti fjárlaganefndar fyrir þriðju umræðu fjárlagafrumvarpsins sagði að í ljósi „umræðu í fjölmiðlum beinir meiri hlutinn því til ráðherra að endurskoða þær reglur sem gilda um rekstrarstuðning við einkarekna fjölmiðla á landsbyggðinni þannig að aukið tillit verði tekið til þeirra sem framleiða efni fyrir sjónvarp.“
Samkvæmt heimildum Kjarnans mun fjárframlagið renna inn í styrkjakerfi fyrir einkarekna fjölmiðla og hækka þá upphæð sem þar verður til úthlutunar úr 377 milljónum króna á næsta ári, í 477 milljónir króna.