Lággjaldaflugfélagið Ryanair ætlar að hefja áætlunarflug milli Evrópu og Bandaríkjanna á næstu fjórum til fimm árum. Félagið segir að ódýrustu flugin muni kosta 10 pund, eða rúmlega 2.000 íslenskar krónur, aðra leið.
Stjórn Ryanair hefur samþykkt áætlanir um að hefja flug milli allt að fjórtán áfangastaða í Evrópu annars vegar og Bandaríkjunum hins vegar. Meðal áfangastaða verða New York, Boston, Chicago og Miami frá London, Dublin og Berlín, að því er fram kemur í frétt Guardian.
Fyrirtækið á nú í viðræðum við flugvélaframleiðendur um kaup á langdrægari flugvélum en það hefur nú yfir að ráða, en vill ekki greina frekar frá þeim viðræðum.
„Evrópskir neytendur vilja ódýrari ferðir til Bandaríkjanna og það sama gildir um Bandaríkjamenn sem koma til Evrópu. Við sjáum þetta sem rökrétta þróun á evrópskum markaði,“ segir fyrirtækið í tilkynningu.
Michael O'Leary, forstjóri Ryanair, hefur viðurkennt að stór hluti sæta í vélunum muni þurfa að vera viðskipta- eða fyrsta farrými, til þess að dæmið gangi upp. Hann segir einnig að í venjulegum sætum muni farþegar þurfa að borga aukalega fyrir allt annað og inni í verðinu eru ekki skattar.
Breska blaðið Telegraph hefur reiknað saman áætlaðan aukakostnað við flugið með Ryanair. Með því að velja sæti, kaupa mat og vatn og vera með 15 kílóa tösku yrði verðið líklega komið upp í 185 pund, eða 38 þúsund krónur, samkvæmt útreikningunum. Hér má skoða útreikninga Telegraph.