Ef laun á vinnumarkaði hækka jafn mikið og laun lækna næstu þrjú árin mun það valda mikilli verðbólgu, gengislækkun krónunnar og verulegri hækkun verðtryggðra skulda. Þetta fullyrða Samtök atvinnulífsins (SA) í tilkynningu sem birt hefur verið á vef samtakanna. Uppsöfnuð verðbólga á tímabilinu yrði 27% og verðtryggð lán heimilanna myndu hækka um 500 milljarða króna, samkvæmt greiningu samtakanna. Kaupmáttur launa myndi aðeins aukast um 2%.
„Þetta eru niðurstöður nýrrar greiningar Samtaka atvinnulífsins þar sem metin eru áhrif þess að laun á vinnumarkaði hækki til samræmis við kjarasamninga lækna. Aðeins er litið til kaupmáttar launa en ekki ráðstöfunartekna. Mikilli verðbólgu samhliða miklum launahækkunum fylgir mikil hækkun verðbóta og vaxta og myndi almenningur því hafa minna á milli handanna ef þessi leið verður farin,“ segir í tilkynningu samtakanna.
Töluverðrar spennu gætir nú á vinnumarkaði fyrir komandi kjarasamningsviðræður, ekki síst eftir að læknar sömdu um meira 20 prósent hækkun á launum sínum. Rík krafa er um það hjá verkalýðshreyfingunni að lægstu laun verði hækkuð myndarlega. Þá lét Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, hafa eftir sér að nú væri svigrúm til launahækkana fyrir hendi og að það ætti að nýta.
Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, hefur talað fyrir því að kjarasamningarnir skili raunverulegri framleiðniaukningu í samfélaginu og þannig bættari kjörum fyrir alla.
Greiningu SA í heild sinni má nálgast hér.