Sá hluti reksturs Reykjavíkurborgar sem fjármagnaður er með skatttekjum, svokallaður A-hluti, var neikvæður um 11,1 milljarð króna á fyrstu níu mánuðum ársins 2022. Fjárhagsáætlun vegna ársins hafði gert ráð fyrir að rekstrarniðurstaðan yrði neikvæð um 1,6 milljarða króna og því er niðurstaða um 9,5 milljörðum krónum verri en stefnt var að.
Þetta kemur fram í nýbirtu uppgjöri Reykjavíkurborgar vegna fyrstu níu mánaða ársins. Þar segir að verðbólga hafi verið 7,8 prósent á tímabilinu sem hafi gert það að verkum að fjármagnsgjöld hafi verið miklu hærri en áætlað var. Þannig hafi A-hluti borgarinnar greitt um fimm milljarða króna meira í vexti á fyrstu þremur ársfjórðungum ársins 2022 en reiknað hafi verið með. Á sama tíma voru tekjur 344 milljónum krónum undir áætlun og rekstrarútgjöld, meðal annars laun, 4,4 milljörðum króna yfir þeim.
Matsbreyting á félagslegu húsnæði upp um 20 milljarða
Hinn hlutinn í rekstri borgarinnar, B-hlutinn, nær yfir afkomu þeirra fyrirtækja sem borgin á að öllu leyti eða að hluta. Fyrirtækin sem teljast til B-hlutans eru Orkuveita Reykjavíkur, Faxaflóahafnir sf., Félagsbústaðir hf., Íþrótta- og sýningahöllin hf., Malbikunarstöðin Höfði hf., Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins bs., Sorpa bs. og Strætó bs, auk Aflvaka hf. og Þjóðarleikvangs ehf.
Þessi matsbreyting, sem ekki er hægt að leysa út nema með því að selja íbúðir Félagsbústaða, gerir það því að verkum að samstæða Reykjavíkur, bæði A- og B-hlutinn, skilaði 6,8 milljarða króna hagnaði á fyrstu níu mánuðum ársins. Það er 758 milljónum krónum meira en áætlanir höfðu gert ráð fyrir.
Hin mikla verðbólga hefur gert það að verkum að fjármagnsgjöld samstæðunnar voru 12,1 milljarði króna hærri en áætlað var.
Segja verðbólgu og hærri stýrivexti hafa áhrif
Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg vegna uppgjörsins segir að ýmislegt hafi sett svip sinn á það. „Bylgja nýs afbrigðis af COVID-19 í upphafi árs fól í sér tímabundið álag á rekstur, einkum á sviðum skóla og velferðar. Stríð í Úkraínu, auk kórónuveirunnar, hefur leitt til skorts á hrávöru og hægt á framleiðslulínum með miklum áhrifum á heimsmarkað og aukinni verðbólgu í okkar helstu viðskiptalöndum. Þá hefur Seðlabankinn, vegna hækkana á húsnæðismarkaði, hárrar verðbólgu og þenslu innanlands, verið í hækkunarferli stýrivaxta og allt hefur þetta áhrif.“
Reykjavíkurborg segist hafa brugðist við erfiðri stöðu með samdrætti í fjárfestingum en gert er ráð fyrir að þær verði 25 milljarðar króna í stað fyrirhugaðra 32,4 milljarða króna, í árslok. „Ný fjárhagsáætlun fyrir árið 2023- 2027 gerir jafnframt ráð fyrir samdrætti í fjárfestingum miðað við fyrri áætlanir ásamt hagræðingaraðgerðum. Þá hefur fjármálastefna borgarinnar verið endurskoðuð með hliðsjón af fjárhagslegri stöðu og efnahagslegu ytra umhverfi samhliða framlagningu fjárhagsáætlunar 2023- 2027.“
Skuldaviðmið tekin úr sambandi til 2025
Samkvæmt sveitarstjórnarlögum ber sveitarstjórn að sjá til þess að rekstri, fjárfestingum og ráðstöfun eigna og sjóða sé þannig hagað á hverjum tíma að sveitarfélagið muni til framtíðar geta sinnt skyldubundnum verkefnum sínum.
Til að fullnægja þessari skyldu er sveitarfélögum gert að fylgja ákveðnum fjármálareglum. Þær fela í fyrsta lagi í sér svokallað jafnvægisviðmið, sem segir að samanlögð heildarútgjöld samstæðu til rekstrar á hverju þriggja ára tímabili megi ekki verða hærri en nemur samanlögðum reglulegum tekjum. Í öðrum lagi er svokallað skuldaviðmið, sem í felst að heildarskuldir og skuldbindingar samstæðu séu ekki hærri en 150 prósent af reglulegum tekjum.
Síðara viðmiðið var hækkað tímabundið upp í 200 prósent með lögum sem Alþingi setti árið 2020 til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru. Sú heimild er sem stendur í gildi til loka árs 2025. Skuldaviðmið samstæðu Reykjavíkurborgar án Orkuveitu Reykjavíkur var komið upp í 93 prósent um síðustu áramót. Síðan þá hafa skuldirnar aukist umtalsvert. Skuldaviðmiðið var 73 prósent árið 2018.