Ef launahækkanir sem samið var um við lækna á dögunum, sem nema ríflega 20 prósentum, yrðu leiðarstefið í komandi kjarasamningum á almennum vinnumarkaði þá myndi verðbólga aukast hratt, vextir hækka og greiðslubyrði á dæmigerðu óverðtryggðu 15 milljóna króna láni gæti hækkað um 30 þúsund á mánuði.
Þetta kemur fram í greiningu efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins. Í henni er á það bent á að aukin sókn heimila í óverðtryggð húsnæðislán hafi gert þau viðkvæmari fyrir vaxtabreytingum og þannig aukið áhrifamátt peningastefnu Seðlabanka Íslands. Lækkunin á greiðslubyrði sem hlaust af hinni svokölluðu leiðréttingu gæti þurrkast fljótt út fari miklar launahækkanir út í verðlag, segir í greiningunni.
Í greiningunni kemur enn fremur fram að óvissa ríki á vinnumarkaði vegna komandi kjarasamninga. Mikið ber í milli í kröfum verkalýðsfélaga og hugmyndum atvinnulífsins og eru kröfurnar víðsfjarri mati Seðlabanka Íslands á aðstæðum, en samkvæmt mati hans, er svigrúmið til launahækkana, á almennum vinnumarkaði, 3,5 prósent. Verkalýðshreyfingin hefur lagt áherslu á nauðsyn þess að hækka laun þeirra sem lægstu laun hafa, og einnig að ná fram hækkunum innan þeirra greina í atvinnulífinu sem ganga vel, eins og til dæmis í sjávarútvegi. Starfsgreinasambandið hefur lagt fram kröfu um að lægstu laun hækki í 300 þúsund á mánuði, en þau eru nú 214 þúsund. Fundur hefur verið boðaður 13. febrúar í húsakynnum Ríkissáttasemjara hjá samninganefnd Starfsgreinasambandsins, en engar formlegar viðræður við samninganefnd Samtaka atvinnulífsins hafa enn hafist.