Í yfirlýsingu frá Samtök atvinnulífsins (SA) kemur fram að tilboð frá samtökunum til SGS feli í sér 23,5 prósent launahækkun dagvinnulauna á þriggja ára samningstíma. Er sérstaklega tekið fram að samtökin tjái sig yfirleitt ekki um tilvoð í yfirstandandi viðræðum, vegna „þess trúnaðar sem um slíkar viðræður gildir“. Þá er tekið fram að formaður SGS hafi í viðtali við fréttastofu 365 „afbakað gróflega“ tilboð SA.
„Í viðtali við fréttastofu 365 í dag er haft eftir formanni Starfsgreinasambandsins, Birni Snæbjörnssyni, að Samtök atvinnulífsins hafi boðið Starfsgreinasambandinu upp á 28 þúsund króna launahækkun í þriggja ára kjarasamningi. Samtök atvinnulífsins tjá sig almennt ekki um þau tilboð sem lögð hafa verið fyrir fulltrúa verkalýðsfélaga á sáttafundum hjá ríkissáttasemjara vegna þess trúnaðar sem um slíkar viðræður gildir,“ segir í tilkynningu SA.
Að sögn SA er innifalið í tilboðinu 8% sérstök hækkun dagvinnulauna, samhliða auknum sveigjanleika vinnutíma og lækkun yfirvinnuálags. „Með þeim hætti yrðu grunnlaun hækkuð sérstaklega og vægi dagvinnulauna í heildartekjum myndi aukast. Launakerfin yrðu þannig færð nær því sem tíðkast í nágrannalöndum okkar, þar sem vinnutímareglur eru mun sveigjanlegri en hér tíðkast og yfirvinnugreiðslur eru hverfandi. Samkvæmt tilboði SA hækkaði lægsti taxti aðildarfélaga SGS um 47 þús.kr. á mánuði á þremur árum,“ segir í tilkynningu SA.
Eins og fram hefur komið, bæði að hálfu forsvarsmanna Samtaka atvinnulífsins og verkalýðshreyfingarinnar, eru kjaraviðræður í algjörum hnút og sátt ekki í sjónmáli. Verkafallsaðgerðir á almennum vinnumarkaði eru þegar hafnar, og eins og mál standa nú, gætu víðtækar verkfallsaðgerðir hafist innan skamms ef ekki tekst að semja um kaup og kjör. Samtals gætu verkfallsaðgerðirnar náð til 140 þúsund starfsmanna, ef ekki tekst að semja í bráð.