Það reynir á nýlega strengd áramótaheit margra í vikunni, þegar íslenska karlalandsliðið í handbolta hefur leik á Heimsmeistaramótinu í Katar. Leikir liðsins eru með allra vinsælasta sjónvarpsefni og mældist áhorf á leiki liðsins á Evrópumótinu í janúar 2014 á bilinu 38 til 48 prósent, samkvæmt fjölmiðlarannsókn Capacent. Eingöngu Eurovision söngvakeppnin og áramótaskaupið draga fleiri að skjánum en leiki handboltalandsliðsins. Fyrsti leikur liðsins á HM er gegn Svíum í dag, föstudag.
Vinsælasti staðurinn á heimilinu til þess að japla á sælgæti og drekka sykraða drykkir er fyrir framan sjónvarpið, og því hætt við því að neyslan aukist þegar vinsælt efni er á dagskrá. Slíkt er vel þekkt, meðal annars í Bandaríkjunum þar sem neysla hefur ávallt aukist í kringum einn stærsta sjónvarpsviðburð þar í landi, Super Bowl úrslitaleikinn í amerískum fótbolta. En hversu miklu eyða íslensk heimili í innkaup á sælgæti og gosdrykkjum?
Neysluútgjöld heimilanna til kaupa á sælgæti og gosdrykkjum |Create infographics
Nýjustu tölur Hagstofunnar eru fyrir árin 2010 til 2012. Gögnin eru hluti af rannsókn Hagstofunnar á útgjöldum heimilanna en hún hefur verið gerð frá árinu 2000 og birt á þriggja ára fresti. Árlega fer samtals 2,7% neyslútgjalda heimilanna í sykur, súkkulaði, sælgæti, godrykki, safa og vatn. Í töflunni má sjá hver útgjöldin eru að meðaltali á mánuði, færð á verðlag ársins 2014, eftir heimilsgerð. Það má spyrja sig hvort neyslan verði meiri þennan janúarmánuð en aðra mánuði ársins, þegar leikir landsliðsins eru á dagskrá.
Kjarninn og Stofnun um fjármálalæsi hafa tekið höndum saman og munu fjalla ítarlega um heimilisfjármál samhliða þáttunum Ferð til fjár, sem sýndir verða á RÚV næstu vikur. Markmiðið: Að stuðla að betra fjármálalæsi hjá landsmönnum! Fyrsti þátturinn var á dagskrá fimmtudaginn 15. janúar. Fylgstu með á Facebook-síðu Ferð til fjár.