Sænska greiðslufyrirtækið Klarna telur sig hafa fundið upp tól sem hjálpi fjölmiðlum, sem háð hafa mikla varnarbaráttu fyrir tilveru sinni á undanförnum árum vegna lægri tekna og sífellt minnkandi notkunar á hefðbundum fjölmiðlum á borð við dagblöð, að færa sig yfir á hið stafræna form án þess að tapa sölu- eða áskriftartekjum. Frá þessu er greint á vef Business Insider.
Helsta vara Klarna er greiðsluhnappur sem hver sem er getur sett á síðuna sína. Kaupendur þurfa einungis að ýta á hnappinn, setja inn tölvupóstfang og póstnúmer, og þá geta þeir keypt vöruna sem þeir vilja eignast með einu klikki. Kaupandinn fær síðar tölvupóst frá Klarna þar sem hann er beðinn um greiðsluupplýsingar.
Klarna man síðan eftir tölvunni þinni, snjallsímanum eða töflunni sem þýðir að einungis þarf að fylla út upplýsingarnar einu sinni. Í næsta skipti sem keypt er vara þá nægir að ýta einu sinni á hnappinn til að ljúka kaupunum.
Vakið mikla athygli fjárfesta
Þessi hugmynd Klarna, fyrirtækis sem var stofnað 2005, hefur þegar vakið mikla athygli fjárfesta. Fyrirtækinu hefur tekist að safna um milljarði dala, um 132 milljörðum króna, í hlutafé. Á meðal fjárfesta er hinn frægi fjárfestingasjóður Seqoia Capital, sem fjármagnaði meðal annars PayPal á tíunda áratugnum og á hlut í hinu íslenska Plain Vanilla.
Í dag fer um 30 prósent af öllum netgreiðslum innan Svíþjóðar í gegnum Klarna. Í fyrra voru um níu milljarðar dalir, um 1.200 milljarðar króna, greiddir í gegnum þjónustu fyrirtækisins.
Þótt Klarna hafi fyrst og síðast þjónustað verslun á netinu fram til þessa telja stjórnendur fyrirtækisins að þjónustan þeirra geti líka gagnast fjölmiðlageiranum til að endurheimta möguleikan á því að rukka fyrir efni.
Klarna og Bonnier AB, stærsta fjölmiðlafyrirtæki Norðurlanda, hafa hafið samstarf með það fyrir augum að bjóða lesendum netmiðla upp á auðveldari og einfaldari leiðir til að nálgast greinar.
Niklas Adalberth, annar stofnenda Klarna, sagði við Business Insider að í dag séu allir í fjölmiðlageiranum að reyna að neyða lesendur inn í flókin áskriftarkerfi. Það sé ekki það sem fólk vill.
Hjálpa til við að bjarga fjölmiðlageiranum
Sem stendur geta lesendur sem fara inn á valdar netsíður á vegum Bonnier AB borgað eina evru, 148 krónur, fyrir svokallaðan „dagpassa“ sem veitir þeim aðgang að öllum greinum. Bráðlega verður einnig hægt að kaupa stakar greinar fyrir lágar upphæðir.
Klarna og Bonnier eru ekki fyrstu fyrirtækin sem fara í samstarf við að reyna að leysa greiðsluvandamál fjölmiðlageirans. The New York Times, Wall Street Journal og The Washington Post hafa öll farið í samstarf með hollensku fyrirtæki sem heitir Blendle um að bjóða upp á örgreiðslur fyrir aðgang að greinum.
Adelbreth telur hins vegar að tækni Klarna sé betri. Ástæðan sé sú að lesendur þurfa hvorki að ná sér í app né skrá sig áður en það fær aðgang að greinunum.
Til stendur að lausnin verði sett í loftið á öllum síðum á vegum Bonnier AB sem vilji er fyrir að rukka um aðgang að í júní. Í framhaldinu ætlar Klarna að kynna tækni sína fyrir öðrum fjölmiðlafyrirtækjum víðsvegar um heiminn.
Adelbreth telur að lausn Klarna sé frábær. „Allir sem við kynnum hana fyrir segja, „Vá, þið eruð að hjálpa til við að bjarga fjölmiðlageiranum“.“