Sæstrengur verður lagður frá Kvilldal í Noregi, sem er í Rogalandi, og til Blyth í Bretlandi. National Grid í Bretlandi, sem er opinbert fyrirtæki um orkumannvirki, og Statnett í Noregi, sambærilegt fyrirtæki þar í landi, hafa samið um sæstrenginn sem verður 730 kílómetra langur. Samningarnir voru undirritaðir í breska sendiráðinu í Osló í gær.
Fyrirtækin tvö hafa svipað verkefni og Landsnet hefur hér á landi.
Sæstrengurinn mun geta afkastað 1.400 megavött af rafmagni og er stefnt að því að hann muni útvega 750 þúsund heimilum í Bretlandi vistvæna orku þegar hann er tilbúinn. Heildarkostnaður er um tveir milljarðar evra, eða um 300 milljarðar króna, að því er fram kemur í The Guardian. Til samanburðar þá er Kárahnjúkavirkjun 690 megavött.
Strengurinn verður lengsti neðansjávarsæstrengur í heiminum, sem flytja mun raforku, og er ætlað að vinna að vistvænu orkukerfi fyrir Bretland til framtíðar litið.
Norðmenn hafa þegar hrint í framkvæmd metnaðarfullum áformum um lagningu sæstrengja til Evrópu, ekki síst vegna góðrar reynslu af strengnum sem lagður var milli Noregs og Hollands.
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) hefur sett fram tilmæli til aðildarríkja sambandsins þess efnis að þau efli samtenginar flutningskerfa raforku, m.a. með aukinni uppbyggingu sæstrengja. Árið 2020 er hverju aðildarríki ætlað að búa að flutningsgetu til annarra ríkja á sem svarar a.m.k. tíu prósent allrar raforku sem framleidd er í landinu. Þessari stefnu er m.a. ætlað að efla orkuöryggi og bæta nýtingu raforkukerfa, og minnka þar með þörfina á að auka vinnslugetu raforku með virkjunum eða öðrum raforkuverum.
Hér má sjá hvernig strengurinn mun liggja milli Noregs og Bretlands. Mynd: Guardian.
Tólf núverandi aðildarríkja ESB uppfylla ekki þessar kröfur í dag, m.a. Bretland og Írland. Ætla má að þessar kröfur, auk kröfunnar um aukinn hlut endurnýjanlegra orkugjafa og aukið orkuöryggi, skýri þann áhuga sem bresk stjórnvöld hafa sýnt á tengingu um sæstreng við önnur ríki, þar á meðal Noreg og Ísland.