„Eftir tvær vikur eru þingkosningar í Bretlandi, og eitt sem ég get lofað ykkur er að afstaða Breta til þessa verkefnis mun ekkert breytast, hvernig sem þær fara,“ sagði Charles Hendry, fyrrverandi ráðherra orku- og loftslagsmála Bretlandi, á opnum fundi um lagningu raforkusæstrengs milli Bretlands og Íslands, sem fram fór í morgun.
Kjarninn, í samstarfi við Íslensk verðbréf, stóð fyrir fundinum en hann fór fram á Hótel Sögu í morgun.
Frummælendur voru Sigþór Jónsson, framkvæmdastjóri Íslenskra verðbréfa, og fyrrnefndur Charles Hendry. Þátttakendur í pallboði að loknum erindum þeirra voru Ragna Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar, og Gunnar Baldvinsson, formaður Landssamtaka lífeyrissjóða.
Sigþór fór í erindi sínu yfir sæstrengsverkefnið, sögulegan bakgrunn þess, viðskiptaforsendur og mögulega fjármögnunaraðferð, en hann rannsakaði verkefnið ítarlega í lokaverkefni sínu í framhaldsnámi við Háskóla Íslands.
Sigþór sagði, að virði orkuauðlinda þjóðarinnar hefði margfaldast á skömmum tíma, og það væri brýnt hagsmunamál fyrir þjóðina og almenning að skoða lagningu sæstrengs til Bretlands gaumgæfilega. Álitamálin væru fjölmörg, en það væri óumdeilt í dag að verkefnið væri vel raunhæft og allt benti til að það væri mjög arðbært. Verðið sem hægt væri að fá fyrir hvert megavatt af raforku væri margfalt hærra en fengist fyrir verðið til stóriðjunnar hér á landi í dag, og því ætti að skoða verkefnið með opnum huga.
Charles Hendry, sem var orkumálaráðherra Breta þegar viljayfirlýsing var undirrituð ásamt stjórnvöldum hér á landi fyrir þremur árum og starfar nú sem ráðgjafi þar sem meðal annars er horft til þess að leggja sæstreng milli Íslands og Bretlands, sagði sæstreng milli Íslands og Bretlands geta falið í sér í mikil tækifæri, fyrir Ísland og Bretland. Margt benti til þess að sæstrengurinn til Íslands væri fýsilegri kostur en margir aðrir möguleikar í þessum efnum, sem Bretar væru nú með á teikniborðinu.
Þá fór hann enn fremur ítarlega fyrir þær áskoranir sem Bretar standa frammi fyrir í orkumálum, ekki síst til þess að geta náð markmiðum um að auka vægi umhverfisvænna orkugjafa og tryggja betur orkuöryggi landsins á næstu árum. Þær áskoranir væru risavaxnar, í öllu samhengi, og áhugi Breta á tengingnum með sæstrengjum væri hafinn yfir allt pólitísk dægurþras, þar sem allir flokkar hefði sammælst um mikilvægi málsins.
Nánari umfjöllun um efni fundarins, og þær upplýsingar sem fram komu á honum, mun birtast á vef Kjarnans á næstunni, og frekari fundarhöld um þetta málefni, þar sem fjallað verður um aðrar hliðar þessa umfangsmikla verkefnisins en þær sem í dag voru til umfjöllunar, eru fyrirhuguð.
Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri var fundarstjóri. Mynd: Anton.
Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður atvinnuveganefndar Alþingis, fylgdist með fundinum. Mynd: Anton.
Vel var mætt á fundinn, sem var opinn öllum. Hann fór fram á Hótel Sögu. Mynd: Anton.
Erindi Sigþórs Jónssonar og Charles Hendry, voru ítarleg og fjölluðu um bakgrunn verkefnisins og viðskiptalegar forsendur þess. Mynd: Anton.
Ragna Árnadóttir og Gunnar Baldvinsson tóku þátt í pallborðsumræðum, og lýstu bæði yfir áhuga sínum á verkefninu. Mynd: Anton.
Sigþór Jónsson, framkvæmdastjóri Íslenskra verðbréfa, var þátttakandi í pallborðsumræðum, sem Þórunn Elísabet Bogadóttir, aðstoðarritstjóri Kjarnans, stýrði. Mynd: Anton.
Sigþór Jónsson, Charles Hendry og Ragna Árnadóttir. Mynd: Anton.