Árum saman hefur breska verslunarkeðjan John Lewis nálgast jólamarkaðssetningu sína með því að búa til sæta en eftirminnilega sjónvarpsauglýsingasögu um einhvern sem gerir eitthvað til að gera jólin betri fyrir einhvern annan. Þessi leið hefur gefist vel fyrir John Lewis og ár hvert er auglýsingar keðjunnar beðið með eftirvæntingu og mikið gert úr henni í breskum fjölmiðlum. Jólasöguþemað hefur líka smitast yfir til annarra landa, meðal annars Íslands, eins og má til dæmis sjá í jólaauglýsingu Icelandair þetta árið.
https://www.youtube.com/watch?v=iccscUFY860
Í ár fékk John Lewis hins vegar samkeppni. Stórmarkaðskeðjan Sainsbury´s var orðin leið á því að athyglin fyrir bestu jólaauglýsinguna félli alltaf á sama stað og ákvað að ráðast í hugmynd sem daðrar við að vera auglýsingalegt stórvirki.
Auglýsingin setur á svið aðfangadagskvöld árið 1914, þegar fyrri heimstyrjöldin var nýhafin. Hún sýnir breska og þýska hermenn, sem börðust hatrammlega gegn hvorum öðrum í stríðinu, fagna jólunum stuttlega saman líkt og ekkert stríð hafi geisað. Í aðalhlutverki er síðan súkkulaðistykki, og auðvitað var hægt að kaupa slíkt súkkulaðistykki í verslunum Sainsbury´s fyrir jólin.
https://www.youtube.com/watch?v=NWF2JBb1bvM
Auglýsingin var gerð í samstarfi við góðgerðarsamtökin Royal British Legion, sem veita fyrrum hermönnum í breska hernum og fjölskyldum þeirra stuðning, og rennur allur söluágóði af súkkulaðinu góða, sem kostar eitt pund, til samtakanna. Breskir fjölmiðlar hafa hampað Sainsbury´s fyrir auglýsinguna frábæru og lýst keðjuna sem sigurvegara í jólaauglýsingakeppninni 2014.
Súkkulaðið góða sem fæst í Sainsbury´s.
Sainsbury´s skákaði því John Lewis, all rosalega þetta árið og það verður áhugavert að sjá hvernig síðarnefnda fyrirtækið bregst við að ári.
Báðar auglýsingarnar hafa gengið afar vel í netheimum og þar hefur John Lewis, enn sem komið er, vinningin ef stuðst er við áhorfstölur. Alls hafa rúmlega 21 milljón manns horft á mörgæsina Monty og vin hans á meðan að hermennirnir hressu og súkkulaðistykkið þeirra er með 15,6 milljón áhorf á Youtube.