Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, segir í kæru á hendur Ingveldi Einarsdóttur dómara að meðferð hennar varðandi kröfur um húsleitir hafi verið andstæð lögum. „Verulega hafi á skort að vinnubrögð umrædds héraðsdómara hafi verið í samræmi við lög þegar heimild til húsleitar og haldlagningar hafi verið veitt,“ segir orðrétt í kæru Þorsteins, sem birt er í heild sinni í Kjarnanum í dag. Kæran var lögð fram 23. júní síðastliðinn en á rætur sínar að rekja til úrskurða í tengslum við aðgerðir Seðlabankans gegn Samherja fyrir rúmlega tveimur árum. Málin eru enn til rannsóknar.
Ekki hægt að sannreyna
Þorsteinn Már, sem skrifar undir kæruna fyrir hönd Polaris Seafood ehf., segir að ekki hafi verið mögulegt að sannreyna gögn og fylgiskjöl sem voru meginrökstuðningur fyrir húsleitum í starfsstöðvum Samherja í marsmánuði 2012. „Rétt er að geta þess að hvorki kærandi né aðrir sem beiðnirnar beindust að hafa getað sannreynt að gögn og fylgiskjöl hafi yfir höfuð verið lögð fram fyrir hinn nýja dómara, þrátt fyrir að í úrskurðum hans sé vísað til þess að rannsóknargögn málsins liggi frammi og byggt sé á þeim. Ástæða þess er sú að umrædd gögn eru ekki í vörslum dómstólsins þrátt fyrir skýra og ófrávíkjanlega lagaskyldu þar að lútandi,“ segir í kærunni.
Þorsteinn Már segir „þvingunaraðgerðir“ þær sem farið var út í að morgni dags 27. mars 2012 hafa byggt á heimildum dómara þar um, sem hafi verið fengnar fram með meintum brotum á lögum. Er þar sérstaklega tiltekin 131. grein almennra hegningarlaga, þar sem vikið er að störfum dómara og opinberra starfsmanna. Í henni segir: „Ef dómari eða annar opinber starfsmaður, sem á að halda uppi refsivaldi ríkisins, beitir ólöglegri aðferð til þess að koma manni til játningar eða sagna, framkvæmir ólöglega handtöku, fangelsun eða leit eða leggur að ólögum hald á skjöl eða aðra muni, þá varðar það sektum eða fangelsi allt að 3 árum.“
[embed]http://issuu.com/kjarninn/docs/2014_06_26/8[/embed]
Vill ekki tjá sig
Þorsteinn Már telur að dómarinn hafi brotið gegn fyrrnefndu lagaákvæði með því að vanrækja könnun lagaskilyrða, boða fulltrúa kæranda ekki til þinghalds og þingmerkja ekki eða varðveita gögn.
Kæran er nú komin inn á borð Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og er þar til meðferðar. Í samtali við Kjarnann sagðist Ingveldur Einarsdóttir ekki vilja tjá sig um kæruna á hendur henni.
Sjá má kæruna í heild sinni, hér.