Þór Jónsson, upplýsingafulltrúi fjármögnunarfyrirtækisins Lýsingar, gagnrýnir Jón Gunnarsson, þingmann Sjálfstæðisflokks og formann atvinnuveganefndar Alþingis, harðlega fyrir afskipti af skuldamáli verktakafyrirtækisins Fjarðargrjóts í aðsendri grein á Pressunni í dag.
Eins og Kjarninn greindi fyrstur frá á föstudag, hafði Jón Gunnarsson ítrekuð afskipti af skuldamáli Fjarðargrjóts gagnvart Lýsingu, að því er fram kom í ræðu þingmannsins á fimmtudaginn. Verktakafyrirtækið styrkti framboð þingmannsins í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi í fyrra um fimmtíu þúsund krónur.
Í júlí staðfesti Hæstiréttur Íslands úrskurð Héraðsdóms Reykjaness, þar sem Lýsingu var heimilað að fá ellefu vinnuvélar og einn fólksbíl, auk annarra tækja, tekin með beinni aðfararaðgerð úr vörslu Fjarðargrjóts. Fyrirtækin gerðu með sér kaupleigusamninga, með ólögmætri gengistryggingu, vegna tækjanna, sem verktakafyrirtækið efndi ekki sökum deilna um endurútreikninga á samningunum. Lýsing rifti samningunum í byrjun október 2012, en þá námu vanskil Fjarðargrjóts gagnvart Lýsingu tæpum 65 milljónum króna.
Segir Lýsingu hafa unnið samkvæmt samningsbundnu mati
Í ræðu sinni gerði þingmaðurinn Jón Gunnarsson athugasemd við mat Lýsingar á verðmæti tækjanna. Lýsing hefði metið tækin á 46 milljónir króna, sem svo hafi verið seld fyrir 73 milljónir á nauðungaruppboði. Jón sagði markaðsverðmæti þeirra um 120 milljónir króna samkvæmt mati „löggiltra sala slíkra tækja.“ Þá sagði Jón í ræðu sinni: „Þetta er auðvitað mjög sláandi dæmi. […] Ég gerði ítrekaðar tilraunir í síðustu viku og síðustu tíu daga, til þess að ná sambandi við forystumenn Lýsingar, til þess að fá á þessu skýringar, og satt best að segja fékk ég engin svör við því, þrátt fyrir að hafa talað þar við fleiri en einn starfsmann og lagt inn skilaboð og sent tölvupósta til þess að ítreka mál mitt.“
Í áðurnefndri grein skrifar upplýsingafulltrúi Lýsingar: „Fram hefur komið í fréttum að jarðvinnslufyrirtækið gerðist fjárhagslegur bakhjarl þingmannsins á sama tíma og það lét undir höfuð leggjast að greiða af samningum sínum við Lýsingu. Hefur hann ásamt SI (Samtökum iðnaðarins) dregið í efa heimildir Lýsingar til að takmarka tjón sitt og hamla frekari skerðingu á stjórnarskrárvörðum eignarrétti félagsins með því að meta tækin í samræmi við umsamda uppgjörsskilmála. Er gefið í skyn að Lýsingu hafi borið skylda til að lækka skuldir vanskilafyrirtækisins meira en nam matsverðinu og vísað í eitthvert óskilgreint álit „löggiltra sala“ því til sönnunar.“
Þór Jónsson skrifar að á meðal þess sem Lýsing semji um við fyrirtæki á borð við Fjarðargrjót, komi til hugsanlegrar riftunar samninga, sé að félaginu sé heimilt að láta umboðsaðila eða aðra til þess bæra matsmenn meta leigumuni til uppítökuverðs að teknu tilliti til 15 prósenta viðbótaraffalla auk viðgerðarkostnaðar og sölulauna upp á 3 prósent. Lýsing hafi neyðst til að höfða mál til að tryggja eignir sínar.
„Jarðvinnslufyrirtækið mótmælti mati Lýsingar og fór fram á uppboð á eignunum. Við því var orðið, með athugasemdum um ástand eignanna þegar við átti, og fær jarðvinnslufyrirtækið að njóta söluverðsins á uppboðinu að frádregnum útlögðum kostnaði, enda er það hærra en matsverðið. Uppboðið var óvenjulega vel sótt og árangursríkt, en fyrirtækið hafði sjálft auglýst það upp. Uppboðsverðið var samt sem áður fjarri því mati sem þingmaðurinn og SI leggja til grundvallar og sýnir best í hve litlum tengslum við raunveruleikann það er,“ skrifar upplýsingafulltrúi Lýsingar.
Sakar þingmanninn um óeðlileg afskipti
Þá gagnrýnir upplýsingafulltrúi Lýsingar framgöngu Jóns Gunnarssonar í málinu, að hann hafi notað ræðustól Alþingis til að vekja athygli á málinu, og að hann sem fulltrúi löggjafavaldsins hafi í hyggju að þrýsta á sjálfstæða eftirlitsstofnun framkvæmdavaldsins til að beita sér í málinu. Í þessu sambandi er Þór Jónsson að vísa til ummæla Jóns Gunnarssonar í áðurnefndri ræðu þar sem hann sagðist ætla að vísa málinu til Fjármálaeftirlitsins.
Skjáskot tekið af Facebook síðu Jóns Gunnarssonar.
„Í ræðu sinni á Alþingi kvartaði þingmaðurinn m.a. undan því að hafa ekki fengið upplýsingar hjá Lýsingu um málið. Hlýtur hann þó að skilja að fjármálafyrirtæki getur ekki gefið þingmönnum upplýsingar um einstaka viðskiptavini, þótt þeir séu pólitískir stuðningsmenn þeirra, eða rætt við þá umboðslaust um meðferð málsins. Auk þess er ekki rétt hjá þingmanninum að Lýsing hafi ekki svarað boðum hans. Framkvæmdastjóri hjá Lýsingu reyndi að ná í hann í síma og sendi honum tölvupóst eftir að skrifstofa Alþingis hringdi og bað um að haft yrði samband við hann. Starfsmaður þingsins skilaði því þá að þingmaðurinn vildi ekki tala við neinn nema forstjórann,“ skrifar Þór Jónsson í áðurnefndri grein á Pressunni.
„Nú mætti ætla að umboðsmenn almennings og hagsmunafélög á sviðinu brygðust ókvæða við skekktri samkeppnisstöðu vegna vanskila af þessu tagi, sem jafnframt grafa undan möguleikum fjöldans á hagstæðri fjármögnun. En það er öðru nær. Heildarhagsmunir eru látnir víkja fyrir skammtíma sérhagsmunum.“
Þá gagnrýnir upplýsingafulltrúi Lýsingar sömuleiðis Samtök iðnaðarins fyrir yfirlýsingu samtakanna sem birtist á heimasíðu þeirra á fimmtudaginn, þar sem fram kemur gagnrýni á vinnubrögð Lýsingar.
„SI (Samtök iðnaðarins) gáfu Lýsingu heldur ekki langan frest til að svara óformlegri fyrirspurn frá lögfræðingi samtakanna um afstöðu til fordæmisgildis nýlegs Hæstaréttardóms áður en gefin var út fréttatilkynning með ásökunum á hendur félaginu. Er þó full ástæða til að vanda svör til þessara samtaka, sem höfðu mótað sér skoðun á dóminum og gefið hana út opinberlega sama dag og hann var kveðinn upp, þrátt fyrir að hafa hlaupið illilega á sig áður, þegar málefni Lýsingar voru til umræðu, og tilkynnt félagsmönnum sínum um fordæmi dóms, sem Hæstiréttur staðfesti síðar að væri rangur. Samtökin hafa ekki séð ástæðu til að skýra frá því á heimasíðu sinni að þau höfðu á röngu að standa, hvatningin til félagsmanna þeirra um að hætta að greiða af lögmætum samningum hafi ekki verið á rökum reist og aðeins valdið hlutaðeigandi auknum kostnaði.“