Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, telur líkur á því að til átaka komi á vinnumarkaði í vor hafa aukist eftir að fjárlög ársins 2015 voru samþykkt á Alþingi seint í gærkvöldi. Morgunblaðið greinir frá málinu á forsíðu blaðsins í dag.
Gylfi segir að í fjárlögunum birtist viljaleysi stjórnvalda til að styðja uppbyggingu félagslegs húsnæðis fyrir þá efnaminnstu.
Til að afstýra verkföllum í vor telur forseti ASÍ að tvennt þurfi að koma til. Að lægstu laun hækki mikið eða stjórnvöld styðji við uppbyggingu félagslegs húsnæðis fyrir þá tekjulægstu.
Ný könnun Eflingar, sem sýnir hátt hlutfall lágtekjufólks á leigumarkaði, er vitnisburður um að margir í þeim hópi geti ekki látið enda ná saman, að mati Gylfa. Það sama gildi um nýjar tölur frá umboðsmanni skuldara, þar sem fram kemur að lágtekjufólk er í yfirgnæfandi meirihluta þeirra sem sótt hafa um greiðsluaðlögun á árinu vegna annarra skulda en fasteignaskulda.
Forseti ASÍ gagnrýnir ríkisstjórnina, í samtali við Morgunblaðið, fyrir að hafna þeirri leið að niðurgreiða vexti til að byggja upp félagslegt húsnæði. „Það þarf sem sagt annað hvort að hækka grunnkaupið mjög mikið hjá þeim sem lægst hafa launin eða fara fram með sameiginlega kröfu um að aðildarfélög ASÍ stofni húsnæðisstofnun.“ Þá útilokar Gylfi ekki að aðildarfélög ASÍ muni beina þeirri kröfu til atvinnurekenda að vandinn verði leystur með sameiginlegu átaki.
„Það er auðvitað alveg ný nálgun að það verði gerð krafa á atvinnulífið um að leggja fé í húsnæðissjóð á vegum verkalýðshreyfingarinnar,“ segir Gylfi Arnbjörnsson í samtali við Morgunblaðið.