„Áherslur svonefndrar Hvítbókar á lestur, starfsnám og styttingu námstíma eru góðar og gildar þótt áherslu á kennaramenntun sé saknað.“ Þetta segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, forstöðukona menntunar- og nýsköpunarsviðs Samtaka atvinnulífsins og fyrrverandi menntamálaráðherra, í ítarlegri grein um menntamál og stöðu þeirra í íslensku samfélagi í árslok. Í grein sinni fer Þorgerður vítt og breitt yfir sviðið þegar kemur að skólastarfi, og segir meðal annars að nauðsynlegt sé að huga betur að lestri og og lestrarkennslu. „Lesturinn er lykilatriði og ber að taka föstum tökum strax í leikskóla. Þetta er ekki eingöngu sett fram út frá rómantískri sýn þar sem barn les bók sér til yndisauka heldur er ljóst að ef ýtt er undir lestrarhæfni strax frá byrjun er mun líklegra að viðkomandi einstaklingur finni hæfileikum sínum farveg innan skólakerfisins og komi þaðan með sterkari bakgrunn og sjálfsmynd en ella. Það minnkar líkur á brotthvarfi síðar meir,“ segir Þorgerður Katrín í grein sinni.
Hún segir það enn fremur vera umhugsunarefni hvort það hafi tekist nægilega vel til á undanförnum áratugum við uppbyggingu skólakerfis í landinu. „Einnig má spyrja hvort kjarabarátta kennara síðustu ára og áratuga hafi skilað vel launuðum kennurum, hvort ríki og sveitarstjórnir hafi barist nægilega fyrir sveigjanlegu, fjölbreyttu og samkeppnishæfu skólakerfi og hvort atvinnulífið hafi ýtt markvisst á slíkar breytingar?,“ segir Þorgerður Katrín.
Grein Þorgerðar má lesa í heild sinni á vef Kjarnans, en hún er hluti af ítarlegri pistlaröð Kjarnans þar sem árið 2014 er gert upp og kafað ofan í stærstu og mikilvægustu mál ársins.