Björn Þorvaldsson, sem sótti Al Thani-málið fyrir hönd embættis sérstaks saksóknara, segir það misskilning hjá Ingibjörgu Kristjánsdóttur, eiginkonu Ólafs Ólafssonar, að eiginmaður hennar hafi verið dæmdur í fangelsi á grundvelli misskilnings.
Það sé alveg skýrt að í því símtali þar sem rætt hafi verið um „Óla“ sem Hæstiréttur fjallar um sé verið að ræða Ólaf Ólafsson, ekki lögfræðing með sama fornafni sem sé sérfræðingur í kauphallarviðskiptum, líkt og Ingibjörg heldur fram í grein í Fréttablaðinu í dag. „Ég held að þetta sé misskilningur hjá henni. Hún vitnar þarna í símtal sem á sér stað og getið er í dómnum. Bæði í ljósi þess sem fram kemur í símtalinu og samhengisins þá er í fyrsta lagi alveg klárt mál að það er verið að tala um Ólaf Ólafsson í þessu símtali. Í öðru lagi, sem kemur í ljós fyrir öllum sem lesa dóminn, þá eru fullt af öðrum gögnum, tölvupóstar og framburðir og annað, sem benda til aðkomu Ólafs. Þannig að ef þessu símtali yrði kippt út yrði hann sakfelldur eftir sem áður.“
Ingibjörg fullyrti í grein sinni að bæði ákæruvaldið og héraðsdómur hafi áttað sig á því að umrætt símtal var ekki um Ólaf, eiginmann hennar. hún telur þennan misskilning vera grafalvarlegan þar sem Hæstiréttur dragi, að hennar mati, mjög víðtækar ályktanir af samtalinu strax í upphafi dóms síns. Ljóst er að embætti sérstaks saksóknara er á öðru máli
Hér að neðan má lesa umfjöllun Hæstaréttar um viðkomandi símtal:
„Í málinu liggur fyrir endurrit af hljóðupptöku af símtali milli EH og BÓ, sem eftir upphafsorðum þess fór greinilega fram á sama tíma og EH sendi tölvubréfið með skipuritinu, en hann tók einnig fram að hann hafi reynt að ná í BÓ daginn áður. Fljótlega í samtalinu kvaðst EH óttast að lán, sem hann nefndi „profit participating lán“ og fæli í sér að lánskjörin tækju mið af þróun á verðmæti hluta í Kaupþingi banka hf., kynni að mati skattyfirvalda að fela í sér duldar arðgreiðslur. Hann hafi leitað álits hjá tveimur nafngreindum Íslendingum, sérfróðum á sviði skattaréttar, sem hafi lýst þeirri skoðun að hjá þessu mætti komast með því að hafa lánið í formi skuldabréfs og kjörin í formi vaxta. Hann lýsti því að ef „við lendum í einhverju veseni með þetta, að skattayfirvöld verða nú að þráskallast við eins og oft kemur upp sko ... þá er næsta í rauninni girðing ... hvar getum við sett þá upp félag ... ég viljandi ... setti það hvergi upp ... sagði bara að þeir myndu sko setja þetta inn sem equity inn í félagið en það er útfærsluatriði að þessar 300 milljónir sem þeir koma með saman, 150 og 150, að það geti verið í formi sko eigin fjár og ... hérna hluthafaláns ... til þess að fá vaxtagjöld ... og við tékkuðum á því með Kýpur að það gengur alveg … að koma inn með bara stórt hluthafalán, að það yrði frádráttarbært frá öllum vaxtatekjum.“ EH vísaði síðan til upplýsinga í tölvubréfi frá endurskoðunarfyrirtækinu á Kýpur og sagðist þá um leið senda það áfram til BÓ. Sagði þá BÓ að hann væri „aðeins búinn að nefna það við Óla sko að það yrði Kýpur félag fyrir ofan, þannig að ... hann veit af slíkum möguleikum“. Hann bætti því svo við að það væri „annað sem að þyrfti að tékka sig af líka sko í þessu sko, ég var nú að ræða við … Óla sko um að ... mér sýndist vera í lagi ... en það var sko, hvort að það væri sko flöggun á honum“. Sagði þá EH að þetta væri „næsta atriði af því hann er náttúrulega þarna inni í Eglu og allt það ... þá kom einmitt þetta sko, í mínum huga ókei, náttúrulega uppleggið frá Magga var að segja eitthvað ... hann má ekki flagga, við viljum bara að Qatarinn flaggi og enginn annar, hann er bara einn í þessu sko.“ Þessu játti BÓ og sagði þá EH að þess vegna yrði þetta að verða í formi láns. Hann bætti því svo við að hann vildi ræða þetta við BÓ „áður en við klárum þetta, því að þeir eru búnir að samþykkja þetta Ólafur og, og [MAT] og þetta er bara go“. Lýsti EH eftir þetta að MAT ætti „Q Icelandic“ að fullu og hann væri búinn að taka þar stóra fjárfestingu í Alfesca hf., en ef hann tæki „síðan stöðu í bankanum ... og á síðan félagið ... 50% á móti Ólafi ... er eitthvað hætta á að við getum sagt að það eru bein eignatengsl þarna á milli, af því þetta er afkomutengt“. Sagði þá BÓ að „það er hætta á því sko ... ég þarf að þræða mig aðeins í gegnum það ... ég sagði bara við Óla að mér sýndist að þetta þarna ... sko hann var þá ekki búinn að ræða, við vorum þá ekki búnir að ræða sko arðgefandi lánið ... að það yrði beint, beint arðgefandi sko, ef það væri alveg skilyrði að það væri arðgefandi sko“. Skaut þá EH inn orðunum „já, sem það og er sko, af því að mér skilst að Ólafur náttúrulega á að fá sinn part í kökunni sko“. Játti BÓ því og sagði „hann, hann þarf að fá sinn part af, af upside-inu sko.“ Í framhaldi af þessu ræddu þeir um ýmis atriði varðandi útfærslu á viðskiptunum í tengslum við félög á Kýpur og Bresku Jómfrúareyjunum, en um það sagði svo BÓ að þetta væri „útfærsluatriði en grundvallarspurningin er náttúrulega bara fyrst og fremst ... er flöggun þarna eða ekki, sko.“ Hann bætti því síðar við að þá væri „spurning sko hvernig strúktúrinn hjá honum persónulega er fyrir ofan en það er auðvitað hans mál sko ... ég var ekkert búinn að ræða sko, hann var að spyrja um það hann Óli sko“. Eftir þetta tóku við nokkuð langar samræður um skattaleg atriði, en undir lok samtalsins sagðist BÓ „tékka á, á þessu út frá kauphallarmálum“ og aðeins síðar sagði EH að það væru þá „þrjú atriði, það er eignarhaldið, flöggunin, síðan númer tvö er, er arðstekjur ... og þrjú er, er skattur á vexti.“
[...]
Símtal, sem EH og BÓ áttu 17. september 2008, hefur áður verið rakið í nokkru máli, en af fyrirligjandi gögnum verður séð að EH hafði rétt fyrir það sent BÓ tölvubréf, sem fyrrgreint skipurit fylgdi. Af upphafi samtalsins verður ekki annað ráðið en að þeir hafi á fyrri stigum átt orðaskipti um efnið, sem skipuritið varðaði, þótt gögn liggi ekki að öðru leyti fyrir um það í málinu. Ítrekað kom fram í þessu símtali að BÓ hafi rætt við „Óla“, sem hann kaus að nefna svo og bersýnilega var ákærði Ólafur, um ýmis atriði í tengslum við viðskipti með hlutabréfin. Án tillits til þess hvort BÓ hafi þar tjáð sig sem umboðsmaður ákærða Ólafs, sem ummæli hans benda þó eindregið til, eða aðeins sem viðmælandi ákærða Ólafs í þágu Kaupthing Bank Luxembourg S.A. getur engin skynsamleg ástæða verið til að efast um að orð BÓ í símtalinu hafi verið reist á samræðum hans við ákærða Ólaf. Í símtalinu kom margsinnis fram að álitaefni hafi verið uppi um hvort þátttaka ákærða Ólafs í fjármögnun Q Iceland Holding ehf. til kaupa á hlutabréfum í Kaupþingi banka hf. gæti valdið því að flöggunarskylda eftir ákvæðum IX. kafla laga nr. 108/2007 myndi kvikna og kvaðst BÓ hafa rætt við ákærða Ólaf um það. EH sagði jafnframt að það væri „náttúrulega uppleggið frá Magga“, sem ætla verður að hafi verið ákærði Magnús, að „hann má ekki flagga, við viljum bara að Qatarinn flaggi og enginn annar“. Ekki getur leikið vafi á því að orðaskipti EH og BÓ í símtalinu um tilhögun og kjör á láni frá sérstöku fjárfestingarfélagi í jafnri eigu ákærða Ólafs og MAT til Q Iceland Holding ehf. hafi tekið mið af því að „grundvallarspurningin er náttúrulega ... er flöggun þarna eða ekki“, svo sem BÓ tók til orða, og hafi viðfangsefni þeirra því snúist um að leita leiða til að gera ákærða Ólaf og MAT eins setta og hefðu þeir sjálfir veitt félagi í sameign sinni lán til kaupa á hlutabréfunum og notið þannig án milliliða hugsanlegs arðs af kaupunum. Umræður um kjör á láni sérstaka fjárfestingarfélagsins til Q Iceland Holding ehf. beindust af þessum sökum að því að finna leið til að láta arð af þessum kaupum renna allt að einu að endingu til þeirra beggja, ákærða Ólafs og MAT, þótt sá arður þyrfti áður að fara um nokkurn veg. Leiðin, sem EH og BÓ ræddu um í þessu símtali og var jafnframt tilefni þess að Kaupthing Bank Luxembourg S.A. leitaði 16. september 2008 eftir álitsgerð frá endurskoðunarfyrirtækinu Ernst & Young Cyprus Ltd., sem lokið var 19. sama mánaðar, kann í einstökum atriðum að hafa verið ókunn mörgum öðrum, sem hér komu við sögu, en markmið hennar var þó sýnilega allt að einu á annarra vitorði, svo sem séð verður meðal annars af fyrrnefndu tölvubréfi HBL 19. september 2008 til GÞG og SÖS, þar sem hann kastaði fram spurningu um „hvernig samning ÓÓ gerir við Sjeikinn til að tryggja sér sinn hlut af hagnaðinum af Kaupþings bréfunum sem þeir eru að kaupa.“ Er á þessum grunni hafið yfir skynsamlegan vafa að frá öndverðu hafi verið gengið út frá því að í viðskiptunum um hlutabréfin yrði mynduð leið til að láta ákærða Ólaf njóta til jafns við MAT hugsanlegs arðs af hlutunum, sem félag í einkaeign þess síðarnefnda myndi kaupa í Kaupþingi banka hf. með lánsfé sem að uppruna stafaði frá þeim báðum. Þótt útfærsla á þeirri leið verði ekki sannanlega rakin til ákærða Hreiðars, gagnstætt því sem á við um önnur atriði í fyrrnefndu skipuriti frá 15. september 2008, getur það engu breytt við úrlausn málsins.“